Úr Víðidal á Lónsöræfum
1935
Finnur Jónsson 1892-1993
Finnur Jónsson var fæddur á Djúpavogi og stundaði ungur sjósókn með föður sínum. Hann lauk námi í gullsmíði í Reykjavík árið 1919 og hélt sama ár til Kaupmannahafnar og hóf nám í myndlist við einkaskóla Olofs Rude. Leiðin lá síðan til Þýskalands, fyrst til Berlínar þar sem hann stundaði nám við einkaskóla Carls Hofer og síðan í Listaakademíuna í Dresden þar sem hann teiknaði undir leiðsögn Oskars Kokoschka (1886–1980) auk þess að stunda nám við skóla sem kallaðist Vegurinn, Skóli fyrir nýja list (Der Weg, Schule für Neue Kunst) á árunum 1922–1925. Finnur mótaðist á Þýskalandsárunum af þýskum expressjónisma, kúbisma og konstrúktívisma og gerði tilraunir í þeim anda. Túskmálverk Finns í svarthvítu eru mjög í takt við það sem var að gerast í Þýskalandi á þessum tíma. Framúrstefnuverkum hans var fálega tekið hér heima á Íslandi þegar hann sýndi þau á Café Rosenberg ásamt öðrum litsterkum fígúratívum málverkum árið 1925. Listasafn ríkisins keypti nokkur litsterku expressjónísku málverkanna. Finnur hélt sig við expressjónískt myndmál og hefðbundið myndefni eftir heimkomuna þar sem samspil íslenskra bænda og sjómanna og íslenskrar náttúru var meginviðfangsefnið.