Hinir stefnulausu

1987

Helgi Þorgils Friðjónsson 1953-

LÍ-4729

Helgi Þorgils Friðjónsson er í íslenskri myndlist einn helsti fulltrúi þeirrar hreyfingar er fram kom upp úr 1980 og kennd er við nýja málverkið. Í verkum hans má finna sterka listsögulega skírskotun til barokklistar og ítalskrar endurreisnar en einnig náið samband við eitt af meginþemum rómantískrar listar á 19. öldinni, samband manns og náttúru. Ljóðræna er einkennandi fyrir verk hans og myndefnið sækir Helgi í munnmælasögur, Íslendingasögur og þjóðsögur eða beint úr umhverfinu. Í verkum sínum heldur hann áhorfandanum hugföngnum og laðar fram undraveröld þar sem skarast heimar raunveruleika og þjóðsagna, meðvitundar og drauma, náttúru og ímyndunar. Kímin en um leið fjarstæðukennd frásögn Helga einkennist af sérstæðum húmor og taumlausu hugmyndaflugi. Margþætt og ríkuleg frásögn mætir áhorfandanum á leiksviði sem er utan við tíma og rúm, þar sem manninum eru engin takmörk sett. Helgi segist sjálfur vera að vinna með einsemd mannsins í verkum sínum. Þetta má m.a. sjá í því að manneskjurnar/fígúrurnar í myndunum snertast svo til aldrei, augu þeirra mætast ekki og þær virðast varla vita hver af annarri.

  • Ár1987
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð130 x 240 cm
  • EfnisinntakMannamynd
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17