Örlagateningurinn
1925
Finnur Jónsson 1892-1993

Verkið Örlagateningurinn er áminning um það lán að réttar aðstæður mynduðust á jörðinni svo líf gæti kviknað. Líkinda- og tölfræði eru svið stærðfræði þar sem unnið er með töluleg gögn, þau greind og rannsökuð og dregnar ályktanir út frá þeim. Notast er við líkinda- og tölfræðireikning til að safna gögnum um fortíð og nútíð og túlka út frá þeim miðsækni og dreifingu, auk þess að skoða tíðni viðburða í nútíð og fortíð til að spá fyrir um ýmsa ókomna framtíð. Þegar teningi er kastað eru fræðilegar líkur þess að fá 1 reiknaðar með því að skoða forsendurnar. Heildarfjöldi hliða á teningi er 6 og má því auðveldlega skoða hlutfallið sem lýsir líkum sem um er beðið:
Fjöldi skipta sem viðburður gerist: 1 (Líkur á viðburði = 1 / Heildarfjölda möguleika = 6) = 16,67%
Finnur Jónsson var við nám í Dresden í Þýskalandi þegar borgin var einn helsti vettvangur framúrstefnu í myndlist á fyrri hluta þriðja áratugarins. Málaði Finnur nokkur verk með sterkum vísunum til þessara nýju strauma og er Örlagateningurinn eitt þeirra. Kúbísk áhrif eru augljós í uppbrotinni myndbyggingu og myndrýminu sem svo sterklega markast af skálínum. Hugmyndir konstrúktívista og súprematista um geómetrísk form í myndheimi, sem vísa jafnt til hlutveruleikans og handanheims, eru einnig sýnilegar og yfir verkinu öllu hvílir óútskýrð dulúð. Árið 1925 sýndi Finnur afrakstur Þýskalandsáranna á Íslandi, þar á meðal nokkur hálfabstrakt verk. Sýningin vakti athygli og seldust mörg fígúratív verk en ekkert hinna. Eftir það tóku fígúratívu verkin yfirhöndina og málaði Finnur síðan með góðum árangri í áratugi landslag og myndir af sjómönnum og sjávarlandslagi, en tók aftur upp þráðinn í abstraktmálverkum á sjöunda áratugnum. Um svipað leyti hlutu hin einstöku abstraktverk Finns frá upphafi ferils hans athygli á alþjóðavettvangi og þykir merkasta framlag hans til íslenskrar myndlistar felast í þessum framúrstefnulegu verkum frá þriðja áratugnum.