Án titils

1990

Eggert Pétursson 1956-

LÍ-4851

Eggert Pétursson nam við Myndlistarskólann í Reykjavík 1974–1978, Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1976–1979 og Jan Van Eyck-listaháskólann í Maastricht í Hollandi 1979–1981. Flóra Íslands er og hefur verið helsta viðfangsefni Eggerts Péturssonar frá því snemma á níunda áratugnum. Miðill Eggerts í náttúrusýn hans er málverkið og má segja að listamaðurinn ljái þessum hefðbundna miðli nýtt hlutverk og nýjar víddir. Verkið Án titils sýnir breiðu íslensks lággróðurs í skýrum og björtum litum. Striginn er alþakinn blómum og hvergi sér í auðan blett. Áferðin og pensildrættirnir, þar sem hverju smáatriði er gefinn gaumur, kveikja líf og þrívídd án þess að farnar séu hefðbundnar leiðir til að gera tvívíðan myndflötinn þrívíðan. Það er fremur eins og ferningur, valinn af tilviljun, sé klipptur út úr náttúrunni og hann málaður. Málverkið verður án upphafs og án endis en samt svo yfirfullt af upplýsingum að hægt er að skoða verkið margsinnis án þess að sjá það á sama hátt, jafnvel bara með því einu að skoða það úr mismunandi fjarlægð. Úr fjarlægð missir verkið alla dýpt en þegar áhorfandinn nálgast það og rýnir í myndina úr lítilli fjarlægð er eins og nýr heimur kvikni.

Myndefnið er verðugt og eitt það algengasta í listasögunni en hér má segja að blómin séu látin í friði í sínu náttúrulega umhverfi, í blómabreiðunni, og ekki verið að fást við neitt í líkingu við uppstillingar liðinna tíma. Enda er hugsunin hér allt önnur og hlutverk áhorfandans að finna – finna fjarlægð og nálægð, kyrrð og hljóð náttúrunnar.

  • Ár1990
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð80 x 86 cm
  • EfnisinntakGróður
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur, Strigi

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17