Stúlka

1987

Jóhanna Kristín Yngvadóttir 1953-1991

LÍ-5660

Jóhanna Kristín Yngvadóttir kom fram á sjónarsviðið snemma á níunda áratug síðustu aldar með eftirminnilegum hætti. Expressjónísk málverk Jóhönnu Kristínar vöktu eindæma hrifningu samferðamanna hennar og lofuðu gagnrýnendur einum rómi þennan unga listamann sem þótti óvenju þroskaður og fágaður. Í verkum sínum túlkaði hún innri og ytri tilfinningaheim af einlægni með kraftmiklum strokum og litaflekum og notaði óspart dökka litaskala og dró fram margslungin tákn í áhrifamiklum verkum. Um verk sín sagði hún meðal annars: „Ég fjalla um samskipti mín við fólk. Fólk er það sem hefur mest áhrif á mann, það veldur gleði og sorg.“ Jóhanna Kristín lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1976 og stundaði framhaldsnám í Hollandi við De Vrije Academie den Haag og Rijksakademie Van Beeldende Kunsten í Amsterdam, þaðan sem hún lauk prófi 1980. Ferill Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur á sér fáar hliðstæður í íslenskri samtímalistasögu. Hann spannaði einungis tæpan áratug frá því að hún sýndi á sinni fyrstu einkasýningu í Nýlistasafninu árið 1983 og þar til hún lést árið 1991. 

  • Ár1987
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð80,5 x 70,5 cm
  • EfnisinntakKona, Stúlka
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur, Strigi

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17