Án titils

1994

Sigurður Árni Sigurðsson 1963-

LÍ-5674

Síðan Sigurður Árni Sigurðsson lauk námi í upphafi tíunda áratugarins hefur landslagið aldrei verið langt undan í verkum hans. En það er ekki hin óbeislaða náttúra sem hann sýnir okkur, heldur landslag sem er mótað af mannavöldum, til dæmis trjágarðar og golfvellir. Landslagið í verkum Sigurðar Árna er greinilega skipulagt og oftar en ekki virðist sem hann noti náttúruna sem tæki til að kanna eiginleika málverksins. Skuggar leika stórt hlutverk í málverkum Sigurðar Árna enda eru það þeir sem tengja það sem við blasir á dúknum við þann raunveruleika sem við þekkjum utan hans.  Litir og form skipa einnig stóran sess í verkum hans. Oftar en ekki kalla litirnir á athyglina vegna þess hve skærir þeir eru eða vegna þess að þeir eiga sér enga samsvörun í raunveruleikanum. Formin eru hins vegar kunnugleg, hringlaga form sem ýmist minna á diska, hnetti, kúlur eða skífur, og oftar en ekki virðast þau fljóta eða svífa á striganum. Stundum virðast þessi form jafnvel vera göt í forgrunni verksins sem gera okkur kleift að líta undir yfirborðið en þegar að er gáð er þetta skynvilla. Þar sem Sigurður Árni málar með olíulit á dúk án sýnilegra pensilfara tekst honum að beina athyglinni að málverkinu sem skynvillu og um leið fer hann með áhorfandann í könnunarferð um myndrýmið. Oftar en ekki beinir hann athyglinni að forgrunni og bakgrunni eða yfirborðinu og því sem leynist undir.

  • Ár1994
  • GreinMálaralist, Málaralist - Olíumálverk
  • Stærð150 x 150 cm
  • EfnisinntakGróður
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17