Sól í Siena

1964

Ásgerður Búadóttir 1920-2014

LÍ-6001

Í upphafi sjöunda áratugarins, eftir að Ásgerður hafði ofið fígúratíf, stílfærð teppi um hríð með þeim árangri að hljóta gullverðlaun á alþjóðlegri lista- og handverkssýningu í Þýskalandi 1956, tók listakonan til við að þróa óhlutbundin verk með forni aðferð sem kölluð er röggvarvefnaður. Er það eins konar flosvefnaður með fremur löngum gisnum endum (röggvum). Á milli umferða með hnýttum röggvum eru ofin tvö eða fleiri einskeftufyrirdrög sem binda voðina saman og mynda botninn eða bakhliðina. Ásgerður nýtti þessa fornu aðferð í nokkur litrík abstraktverk þar sem hún notaði frekar langa og gisna röggva sem kalla fram samspil ljóss og skugga. Í verkinu Sól í Siena sækir Ásgerður innblástur í upplifun sína í ferð um Ítalíu. Hér þekur heitur appelsínurauður litur nánast allan flötinn en út til jaðranna er dumbrauður litur með bláu ívafi sem eykur áhrifin og framkallar minningu um sumar og sól á suðlægum slóðum.

  • Ár1964
  • GreinTextíllist, Textíllist - Myndvefnaður
  • Stærð133 x 118 cm
  • EfnisinntakAbstrakt, Sól
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniUll

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17