Almannagjá
1939
Jón Þorleifsson 1891-1961
Jón Þorleifsson frá Hólum í Hornafirði hóf nám við Teknisk Selskabs Skole í Kaupmannahöfn haustið 1918 og fékk síðan inngöngu í Konunglega listaháskólann árið 1921 en taldi hag sínum betur borgið utan hans. Veturinn 1921–1922 dvaldi Jón í París við nám í Académie de Croquis og síðan aftur árið 1927. Í París hafði Jón aðgang að helstu framúrstefnu í myndlist þeirra tíma og kynnti sér meðal annars verk Picassos (1881–1973), Braques (1882–1963) og Cézannes (1839–1906) sem urðu honum innblástur. Jón bjó í Kaupmannahöfn til ársins 1929, ferðaðist heim til Íslands á sumrin til að mála en sótti jafnframt myndefni í nánasta umhverfi sitt í Kaupmannahöfn. Jafnframt því að halda nær árlega einkasýningu á Íslandi, tók Jón þátt í samsýningum á Charlottenborg og víðar. Upp úr 1920 einkenndust málverk Jóns af ljóðrænum natúralisma og svölum litatónum en á árunum 1924–1926 tók að gæta expressjónískra áhrifa og eftir Parísardvölina 1927 kom ákveðin festa í formbygginguna. Jón vann að uppsetningu Íslensku listsýningarinnar á Charlottenborg árið 1927 og prýddi steinþrykk eftir hann sýningarskrána en Jón mun hafa nýtt sér aðstöðu á steinþrykksverkstæði Chr. J. Cato. Á Íslensku listsýningunni á Charlottenborg 1927 voru 14 málverk eftir Jón, þar á meðal frá Þingvöllum, Hornafirði og Vestmannaeyjum, ásamt málverki af geitum.