Ávextir
2000
Sara Björnsdóttir 1962-

Þegar talað er um nýtingu mannanna á náttúrunni er átt við hvers konar viðleitni þeirra til að uppfylla þarfir sínar, bæði efnislegar og andlegar, með aðstoð náttúrunnar eða hluta hennar. Ræktun er ein tegund nýtingar á náttúrunni og flokkast undir efnislegar þarfir. Fyrr á tíðum ræktaði fólk mest til sjálfsþurfta en í seinni tíð hefur landbúnaður orðið að eins konar iðnaðarframleiðslu. Á myndinni heldur stúlkan á erfðabreyttum tómat sem er orðinn óeðlilega stór. Sara fær þannig áhorfandann til að spyrja sig hversu eðlilegar erfðabreytingar séu fyrir náttúruna. Erfðabreyttar lífverur eru lífverur með erfðaefni sem hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun. Ákveðin lög og reglur gilda um notkun erfðabreyttra lífvera og er þeim ætlað er að vernda náttúru landsins, líffræðilega fjölbreytni, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra gegn hugsanlega skaðlegum og óæskilegum áhrifum þeirra. Þá er leitast við að tryggja að framleiðsla og notkun erfðabreyttra lífvera fari fram á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttar og grundvallarregluna um sjálfbæra þróun. Þegar að er gáð er greinilegt að það eru ekki venjulegir tómatar sem stúlkan heldur á og það eru ekki náttúrulegar „eplakinnar“ sem hún er með, heldur hefur verið átt við hvoru tveggja með nútímatækni. Í þessu verki eins og mörgum öðrum vekur Sara okkur til vitundar um ýmis aðkallandi málefni. Hér beinir hún sjónum að fæðunni, sérstaklega erfðabreyttum matvælum sem eru ræktuð og seld til neyslu. Verkið er ákaflega skýrt í framsetningu þar sem við sjáum mynd af stúlku sem heldur á tveimur vansköpuðum tómötum sem hún keypti. Svipur stúlkunnar er óræður en hún virðist fálát og uppsetningin miðar öll að því að upphefja tómatana líkt og hér sé um fágætt dýrmæti að ræða. Hið fáláta fas gefur þó einnig til kynna brýna spurningu um það hvernig erfðabreytt matvæli geti haft áhrif á lífskeðjuna og jafnvel heilsufar mannanna til langs tíma litið.