Cars in rivers
2009
Ólafur Elíasson 1967-
Cars in rivers, 2009 lýsir barningi mannsins við óútreiknanlega náttúru, um leið og myndröðin gæti með táknrænum hætti lýst efnahagshremmingum þeim sem við Íslendingar höfum lent í síðustu misserin og mætti líkja við kafsiglingu torfærubíla í straumhörðum vatnsföllum. (Halldór Björn Runólfsson, kynningartexti með sýningu).

Samband mannsins við önnur fyrirbæri náttúrunnar er flókið og stundum virðist sem margir hafi gleymt að manneskjan er hluti af náttúrunni en ekki drottnari hennar. Það er algengt að fólk tali um náttúruna án þess að hafa mennina inni í þeirri umræðu. En hvernig sem við skilgreinum þessi samskipti er mikilvægt að hafa í huga að náttúran er ekki stöðugt fyrirbrigði heldur síbreytilegt. Eins og sjá má á þessum myndum hafa þeir, sem misst hafa tökin á bílunum sínum í vatnsmiklum ám, gleymt að gera ráð fyrir síbreytileika þeirra. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að vöðin yfir árnar breytist ekki. Ár eru aldrei í kyrrstöðu. Aldrei eitt augnablik. Í náttúrunni eru sumar breytingar mjög hægar en aðrar aftur á móti svo hraðar að viðbragð mannsins er of hægt eins og sjá má á þessum myndum. Hamfarahlaup í straumvatni getur breytt farvegi þess meira á fáeinum vikum en venjulegt rennsli þess gerir á þúsund árum. Ólafur Elíasson er alinn upp í Danmörku en íslensk náttúra er þó aldrei langt undan í list hans, hvort sem um er að ræða ljósmyndir eða rýmisverk. Í verkum sínum setur Ólafur ýmis náttúrufyrirbæri í nýtt samhengi og veltir gjarnan upp spurningum um samband manns og náttúru með því að beina sjónum að athöfnum og uppátækjum mannfólksins. Á hálendi Íslands verða víða óbrúaðar ár á vegi ferðalanga. Oftast má sigrast á ófærunum og komast klakklaust yfir en stundum fer illa og ökumaðurinn fer halloka fyrir krafti náttúrunnar. Þá er tilefni til að taka ljósmynd.
Cars in Rivers, frá 2009, er samansafn ljósmynda sem fanga raunverulega glímu mannsins við óútreiknanlega náttúru. Jafnframt gæti myndröðin með táknrænum hætti lýst efnahagshremmingum þeim sem Íslendingar lentu í um 2008 og mætti líkja við kafsiglingu torfærubíla í straumhörðum vatnsföllum.