Frá Þórsmörk

1931

Guðmundur frá Miðdal 1895-1963

LÍ-894

Það er óhætt að segja að Guðmundur Einarsson frá Miðdal hafi verið fjölhæfur myndlistarmaður, enda fékkst hann á ferli sínum við hinar ólíkustu listgreinar. Guðmundur var við nám í Teikniskóla Stefáns Eiríkssonar 1911–1913 og sótti tíma í teikningu hjá Þórarni B. Þorlákssyni (1867–1924) og myndhöggvaralist hjá Ríkarði Jónssyni (1888–1977) árið 1916. Á árunum 1917–1919 vann hann að sjö höggmyndum til skreytingar á húsi Nathans og Olsens í Pósthússtræti í Reykjavík en Guðmundur hafði unnið samkeppni um skreytingarnar á húsinu, sem hlýtur að teljast afrek fyrir jafn ungan og ómótaðan myndlistarmann. Verðlaunaféð gerði Guðmundi kleift að halda til listnáms á meginlandi Evrópu, fyrst við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn 1919 en síðan við Listaháskólann í München 1920–1925, þar sem hann lagði stund á höggmyndagerð, veggmyndamálun með freskutækni, svartlist og leirbrennslu, auk hefðbundins teikni- og listmálaranáms. Listhugsun Guðmundar spratt úr jarðvegi hinnar þýsku átthagalistar, Heimatkunst, sem hann kynntist í náminu og sem var aðlöguð íslenskum aðstæðum, menningararfleið landsins og náttúru, með þjóðlegum minnum og rómantískum áherslum. Þegar Íslenska listsýningin fór fram á Charlottenborg árið 1927 hafði Guðmundur haldið þrjár einkasýningar í Reykjavík. Meirihluti verkanna sem Guðmundur sýndi á Charlottenborg voru grafíkmyndir, líklega margar sömu myndanna sem keyptar höfðu verið til Þjóðminjasafns Íslands árið 1923 þegar Guðmundur var enn í námi í München, og tilheyra nú safneign Listasafns Íslands. Guðmundur var gríðarlega afkastamikill myndlistarmaður en ekki er allt talið, því hann er jafnframt þekktur fyrir fjalla- og hálendisferðir, jarðfræðiáhuga og rannsóknir á steinaríkinu, ljósmyndun, kvikmyndun, veiðiskap og rithöfundarstörf.

  • Ár1931
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð80 x 100 cm
  • EfnisinntakÁ, Fjall, Jökull, Landslag
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur
  • Merking gefanda

    Úr safni Markúsar Ívarssonar.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17