Fiskibátar við bryggju
1932
Gunnlaugur Blöndal 1893-1962
Gunnlaugur Blöndal byrjaði ungur að teikna og mála en eins og svo margra annarra Íslendinga í upphafi 20. aldar lá leið hans að myndlistinni í gegnum tréskurð. Hóf hann nám hjá Stefáni Eiríkssyni í Reykjavík árið 1908 og lauk sveinsprófi í tréskurði. Að því loknu hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann lærði teikningu við Teknisk Selskabs Skole í eitt ár og síðan lá leiðin til Óslóar þar sem hann nam við Statens Kunstakademi 1916–1918 en þar var hann nemandi Christians Krogh. Síðan ferðaðist hann víða um Evrópu og hélt svo sína fyrstu einkasýningu í Reykjavík árið 1922. Á árunum 1923–1927 var Gunnlaugur hins vegar í París og stundaði nám við einkaskóla André Lhote og síðar hjá Fernand Léger, auk þess að fara í námsferð til Ítalíu. Á Parísarárunum var Gunnlaugur virkur í sýningarlífi borgarinnar og hlaut hann mikið lof gagnrýnenda og listunnenda fyrir verk sín. Hann sýndi einnig í Kaupmannahöfn og London og átti jafnvel verk á sýningu franskra málara í Tókýó auk þess að sýna á Íslandi og taka þátt í íslenskum samsýningum erlendis. Þótt Gunnlaugur dveldi löngum erlendis á þriðja og fjórða áratugnum sótti hann töluvert af myndefni sínu í íslenskan veruleika. Meðal annars málaði hann allmargar hafnarmyndir sem bera vitni um persónulega og yfirvegaða litanotkun hans sem ásamt óræðum formum og mjúkri birtu kalla fram kyrrð og jafnvel trega. Mannamyndir og málverk af nöktum módelum voru einnig áberandi viðfangsefni Gunnlaugs og þegar hann var sestur að á Íslandi varð íslenskt landslag honum einnig oft að yrkisefni og einkennast þau verk oft af uppleystum formum og óhaminni litanotkun.