DeCore (Aurare)
2012
Dodda Maggý 1981-

Í náttúrunni er ekki bara óregla heldur líka mikil regla. Margir náttúrulegir hlutir byggja á jafnvægi sem kallast gullinsnið. Reglu náttúrunnar má t.d. finna í uppbyggingu kuðungs. Dodda Maggý bjó til listaverkið sitt út frá hugmyndum um gullinsnið og talnarunu sem heitir Fibonacci. Talnarunan gengur út á hvernig hlutir geta fjölfaldast: 0, 1, 1, 2, 3, 5, 8, 13, 21, 34, 55, 89, 144, 233, 377, 610... Þegar Dodda Maggý vann verkið byrjaði hún á því að taka ljósmynd af blómum á eplatrjám. Hún einfaldaði myndirnar og raðaði þeim svo upp út frá talnarununni. Fyrst byrjaði hún á einu blómi og svo bætti hún alltaf við rununa með því að leggja við summuna næstu tölu á undan. Fibonaccirununa er nefnd eftir ítalska stærðfræðingnum Leonardo Fibonacci, sem notaði hana til þess að finna út hversu hratt kanínur fjölga sér.
Dodda Maggý er menntuð bæði í tónlist og myndlist og vinnur mikið með tímatengda miðla. Ólíkt mörgum verka hennar er innsetningin DeCore (aurae) hljóðlaus. Engu að síður er verkið unnið út frá tónlist og beitir Dodda Maggý hér sömu aðferðum við upptökur og úrvinnslu blómamynda og hún notar við hljóðupptökur. Við fyrstu sýn er það sjónræni þáttur verksins sem heillar en þegar gengið er inn í sýningarrýmið verður áhorfandinn hluti af verkinu og upplifir liti, form, takt og flæði verksins á eigin skinni og stundum virðist sem geislabaugur eða ára umlyki áhorfandann í verkinu eins og undirtitill þess vísar til. Ára er einnig heiti á sjónskynjun sem fylgir ákveðinni gerð flogakasta þar sem taugaboð búa til mynstur. Þessi innsetning tilheyrir röð verka sem öll bera heitið DeCore, sem á rætur að rekja til latnesku sagnarinnar „decorare“, að skreyta eða fegra. Í þessari verkaröð vinnur Dodda Maggý með skreytikennt myndefni sem höfðar til fegurðarskyns áhorfenda en til skamms tíma var litið niður á slíka nálgun í myndlist.