Kona að lesa

1938

Þorvaldur Skúlason 1906-1984

LÍ-925

Þorvaldur Skúlason er mikilvægur brautryðjandi samtímalistar í íslenskri listasögu 20. aldar. Á fjórða áratugnum var hann í fararbroddi þeirrar kynslóðar sem hafnaði ríkjandi landslagshefð og túlkaði manneskjuna og hennar nánasta umhverfi með nýjum formrænum efnistökum. Hann tilheyrir þeirri kynslóð listamanna sem þá kveður sér hljóðs; hér er átt við listamenn eins og Jón Engilberts, Gunnlaug Scheving, Snorra Arinbjarnar og Jóhann Briem. Formgerðin í verkum þessara listamanna er um margt frábrugðin innbyrðis og áherslur ólíkar. Samt sem áður er hægt að tala um sterka viðleitni til huglægrar túlkunar sem felst meðal annars í einföldun og samþjöppun myndefnisins. Í íslensku samhengi hafði það í för með sér endalok hinnar klassísku raunsæju túlkunar þar sem málverkið var fyrst og fremst endurbygging sjónrænnar og tilfinningalegrar reynslu. Þorvaldur hóf myndlistarnám í Ósló í lok þriðja áratugarins, hjá Matisse-nemandanum Axel Revold og koma áhrif litakenninga Matisse glöggt fram í verkum Þorvalds um 1930. Þorvaldur var búsettur í París á árunum 1930–1933 og stundaði þar nám við Académie scandinave hjá Marcel Gromaire auk þess sem hann sótti skóla Fernands Léger. Um miðjan fjórða áratuginn, er hann var búsettur í Kaupmannahöfn, einkenndust verk hans af síðkúbískri formgerð en það voru öðru fremur lærdómar af list Pablos Picasso og Georges Braque sem birtust í verkum hans, geómetrísk einföldun myndefnisins og flatargildi formanna.

  • Year1938
  • TypeMálaralist - Olíumálverk
  • Size61 x 47 cm
  • SummaryBók, Kona, Lestur
  • Main typeMyndlist/Hönnun
  • MaterialOlíulitur
  • Donor comments

    Úr safni Markúsar Ívarssonar.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17