Án titils

2019

Eggert Pétursson 1956-

LÍ-9296

Hugtakið „líffræðileg fjölbreytni“ nær til allrar lifandi náttúru, eininganna sem hún er byggð úr og birtingarformanna sem hún tekur. Líffræðileg fjölbreytni spannar náttúrulegan og manngerðan breytileika á öllum stigum lífsins. Hugtakið „lífríki“ er einnig notað í svipaðri merkingu. Það er ekki bara mikilvægt að vernda ólíkar tegundir heldur einnig erfðabreytileika meðal einstaklinga sömu tegundar. Í þessu listaverki er að finna margar ólíkar tegundir brönugrass. Það er mikilvægt að vernda marga ólíka einstaklinga sömu tegundir því að það leiðir til þróunar og aðlögunar lífvera að nýjum búsvæðum og umhverfi. Á Íslandi eru mörg viðkvæm og sérstæð vistkerfi og tegundir sem er mikilvægt að vernda. Margbreytileikinn skiptir miklu máli fyrir vistkerfið á Íslandi.

Myndheimur Eggerts Péturssonar hverfist um jurtir sem finna má í náttúru Íslands. Sjónarhornið er ætíð mjög afmarkað, líkast því að listamaðurinn horfi ofan í svörðinn. Flest verkin eru án titils, en iðulega er viðfangsefnið þó ákveðið blóm, ættkvísl plantna eða jurtir á afmörkuðu svæði. Hér sjáum við allar tegundir brönugrasaættarinnar (lat. orchidaceae) sem vaxa á Íslandi jafndreift yfir myndflötinn en það eru brönugrös, barnarót, friggjargras, hjónagras, kræklurót og tvíblöðkur. Nákvæmnin í vinnubrögðum listamannsins gerir þeim sem þekkja til jurta hægt um vik að bera kennsl á blómin. Fyrir listamanninn er tegundin þó ekki aðalatriðið heldur minningin um jurtina úti í náttúrunni. Minning sem getur verið nýleg eða frá æskuárum. Málverk Eggerts eru þó ekki eftirlíkingar af náttúrunni heldur huglæg verk þar sem leikið er á litahörpuna og fínleg blæbrigði litatóna syngja og klingja saman. Eggert beinir einnig athyglinni að ósnortinni náttúru sem á undir högg að sækja um gervalla jörðina, þar sem maðurinn leitast við að manngera allt umhverfi og eirir engu.

  • Ár2019
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð150 x 200 cm
  • EfnisinntakBlóm, Brönugras, Gróður
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur, Strigi

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17