Big Be–Hide
Alicja Kwade
1.6.2025 — 1.5.2026

Big Be–Hide (Að vera – falinn) eftir Alicju Kwade er hluti af röð verka þar sem listamaðurinn notar spegla til að ögra sjónrænum skilningi áhorfandans. Skúlptúrinn er nú til sýnis í Hallargarðinum við Fríkirkjuveg, við hlið Listasafn Íslands og er í láni frá i8 gallerí til 1. maí 2026. Verkið samanstendur af tveimur steinum – náttúrulegum steini og annarri útgáfu af sama steini sem hefur verið skannaður og steyptur í ál. Steinarnir tveir eru aðskildir með tvíhliða spegli. Í verkinu leikur Alicja sér að hugmyndum um það sem er hulið og það sem er sýnilegt, hvað er spegilmynd og hver upphaflega myndin er í raun. Út frá sjónarhorni áhorfandans birtast steinarnir ýmist sem spegilmyndir eða eins og þeir séu sýnilegir í gegnum glerið, sem skapar dularfulla víxlverkun þar sem raunveruleiki og sjónblekking renna saman.
Alicja Kwade er pólsk-þýsk listakona, sem fæddist í Katowice í Póllandi árið 1979, á tímum þegar landið var enn undir kommúnistastjórn. Hún flúði síðar til Vestur-Þýskalands ásamt fjölskyldu sinni. Þegar hún var 19 ára flutti hún til Berlínar og stundaði nám í þrívíðri myndlist við Listaháskólann í Berlín á árunum 1999 til 2005. Verk hennar eru í mörgum helstu söfnum víða um heim.
1.6.2025 — 1.5.2026
Verkið
Alicja Kwade (1979)
Big Be–Hide (Að vera – falinn), 2018
Steinn, ál, spegill og húðað stál.
Með leyfi: i8 gallerí.
Ljósmynd
Páll Stefánsson