echolalia
björk
31.5.2026 — 20.9.2026

Á hálfrar aldar ferli hefur Björk Guðmundsdóttir, hin margbrotna söngkona, tónskáld, tónlistarflytjandi og ljóðskáld, verið óþreytandi við að þenja hefðbundin mörk tónlistarformsins og í stöðugum tilraunum sínum ofið saman sjónrænum þáttum, náttúru og tækni. Á sýningunni echolalia í Listasafni Íslands verður kastljósinu beint að óþrjótandi sköpunarkrafti Bjarkar við smíð verka sem sameina krafta listamanna úr ólíkum áttum; tónlist, myndlist, kvikmyndagerð, hönnun, dansi og hljóðtækni. Þrjár áhrifaríkar innsetningar veita gestum einstakt tækifæri til að upplifa alltumlykjandi verk sem búa yfir kynngimagnaðri sjónrænni, hljóðrænni og tilfinningalegri dýpt.
Í fyrsta salnum verður ný innsetning með tónlist sem sprettur upp úr væntanlegri plötu Bjarkar. Þannig býðst gestum að kynnast næsta kafla í rannsóknum listakonunnar þar sem umbreytingar og samvinna liggja til grundvallar.
Tvær tregablandnar innsetningar verkanna Ancestress og Sorrowful Soil leggja undir sig sitt hvorn salinn. Verkin eru bæði tileinkuð minningu móður Bjarkar, náttúruverndarsinnanum og baráttukonunni Hildi Rúnu Hauksdóttur sem lést árið 2018. Lögin eru samin og útsett af Björk og komu út á plötunni Fossora árið 2022. Hér birtast þau með nýjum og stórbrotnum hætti.
Í Ancestress er tekist á við hringrás lífsins. Þetta tregaljóð er sviðsett í afskekktum dal á Íslandi og birtist okkur sem eins konar helgiganga tónlistarfólks og dansara, þar á meðal Bjarkar sjálfrar, auk þess sem Sindri Eldon sonur hennar syngur með. Verkið er samið og útsett af Björk fyrir strengjasveit og slagverk. Myndbandið varð til í náinni samvinnu við samstarfsfólk Bjarkar til margra ára, þ.m.t. kvikmyndargerðarmanninn Andrew Thomas Huang og James Merry, sem ásamt Björk er listrænn stjórnandi verksins og hannar einnig grímurnar og munina sem prýða tónlistarfólkið.
Hið pólýfóníska þriggja-kóra-verk Sorrowful Soil er sálumessa um móðurmissi sem lífsafl, samin og útsett af Björk fyrir níu radda kór. Egglaga vídeóverk í leikstjórn Viðars Loga og listrænni stjórn Bjarkar, kallast á við hvort tveggja mennskan og jarðfræðilegan tíma. Myndbandið var tekið upp við eldsumbrotin í Fagradalsfjalli. Þrjátíu hátölurum er raðað upp í salinn og úr hverjum og einum berst stök rödd úr Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Þegar gengið er um salinn geta gestir því upplifað einstaka raddir og samhljóm í senn, og þannig vakna hughrif um mennsku sem er í senn einstaklingsbundin og sameiginleg.
Salur
1
&
2
&
3
31.5.2026 — 20.9.2026
Sýningarstjóri
Pari Stave
Ljósmynd
Björk, 2025 ©Viðar Logi

