Christian Marclay, The Clock
2.5.2025 — 22.6.2025

Hið margrómaða verk The Clock (2010) eftir svissnesk-bandaríska listamanninn Christian Marclay verður sýnt á Listasafni Íslands frá 2. maí til 22. júní 2025. Verkið er epískt, sólarhringslangt vídeóverk á einni rás með hljóði. The Clock hlaut Gullna ljónið á Feneyjatvíæringnum árið 2011 og er almennt talið eitt merkasta listaverk 21. aldarinnar. Verkið er bæði djúpstæð hugleiðing um tímann og virðingarvottur við sögu kvikmyndalistarinnar.
Vídeóverk Marclays er klippt saman úr mörg þúsund myndbrotum, ýmist svarthvítum eða í lit, sem hann safnaði á þriggja ára tímabili. Hvert myndbrot skírskotar til ákveðinnar tímasetningar, hvort sem er í gegnum samtal eða með vísun í tímamæli – klukku, úr, stundaglas, sólúr eða blikkandi útvarpsvekjara – sem í réttri tímaröð spannar heilan sólarhring, mínútu fyrir mínútu. Vídeóið er stillt á staðartíma og er því sjálft tímamælir. Í The Clock er einnig hljóðmynd eftir Marclay þar sem hann notast við hrynjandi hljóða og tónlistar til að fylgjast með því hvað tímanum líður.
Þau ótal augnablik sem skeytt er saman í verkinu mynda ekki heildræna frásögn. Þess í stað skapast nánast súrrealísk hughrif á meðan við fylgjumst með þeim atburðum sem eiga sér stað á þessum sólarhring. Segja má að The Clock sé epísk frásögn um mannlegt athæfi, framkölluð í gegnum linsu kvikmyndavélarinnar, frásögn um þær sameiginlegu hversdagsathafnir okkar sem óhjákvæmilega leiða til tilviljanakenndra samfunda og óvæntra uppákoma.
The Clock mætti einnig lýsa sem memento mori, sem áminningu um hverfulleika lífsins. Marclay hefur sagt að verkið „fjalli á vissan hátt mjög mikið um dauðann ... Frásögnin er stöðugt trufluð og við sífellt minnt á það hvað tímanum líður.“
Í Listasafni Íslands munu fara fram tvær sólarhringslangar sýningar á The Clock sem hefjast annars vegar á opnunarkvöldi sýningarinnar og hins vegar á sumarsólstöðum.
Sólarhringssýningarnar verða:
2. maí, frá kl. 17 til kl. 17 þann 3. maí
21. júní, frá kl. 10 til kl. 10 þann 22. júní
Safnið verður að venju opið sunnudaginn 22. júní frá kl. 10 til kl. 17 og stendur því sumarsólstöðusýningin á The Clock frá kl. 10 á laugardeginum til kl. 17 á sunnudeginum.
CHRISTIAN MARCLAY
Í tæplega 40 ár hefur Christian Marclay (f. 1955, San Rafael, Kaliforníu) kannað tengslin á milli þess sem við sjáum og heyrum. Hann hefur skapað verk þar sem skilningarvitin sjón og heyrn bæði auðga og ögra hvort öðru. Eftir 54. Feneyjatvíæringinn öðlaðist Marclay alþjóðlega frægð fyrir meistaralegt myndbandsverk sitt, Klukkuna (The Clock), en fyrir verkið hreppti hann hin virtu verðlaun Gyllta ljónið. Verk Marclays hafa verið sýnd í söfnum og galleríum víðsvegar um heim, þar á meðan á einkasýningum í Hirshhorn Museum and Sculpture Garden í Washington D.C. (1990), Musée d’art et d’histoire í Genf (1995), Kunsthaus í Zurich (1997), Museum of Contemporary Art í Chicago (2001), San Francisco Museum of Modern Art (2002), Muséed’Art moderne et contemporain í Genf (2008), Whitney Museum of American Art í New York (2010), Leeum, Samsung Museum of Art í Seúl (2010), Garage Center for Contemporary Culture í Moskvu (2011), the Museu d’Art Contemporani de Barcelona (2019), Centre Georges Pompidou í París (2022–2023) og í Museum of Modern Art (2024–2025). Verk hans má finna í safneign Metropolitan Museum of Art í New York, Smithsonian American Art Museum í Washington D.C., Tate Modern í London og Centre Georges Pompidou í París.
Sýningin er að hluta til styrkt af Pro Helvetia.
Salur
1
2.5.2025 — 22.6.2025
Verkið:
Christian Marclay The Clock, 2010
Vídeó á einni rás með steríóhljóði.
Hlutföll 16:9, 24 klukkutímar í lúppu
Sýnt með leyfi listamannsins og Paula Cooper Gallery, New York.
Kynningarmynd:
Christian Marclay
Myndbrot úr The Clock, 2010
Vídeó á einni rás með hljóði
24 klukkutímar
© Christian Marclay.
Birt með leyfi Paula Cooper Gallery, New York og White Cube, London.
Ljósmynd: Todd-White Photography
Í samvinnu með
