Framtíðarfortíð

Samsýning í Listasafni Ísafjarðar

17.6.2024 — 19.10.2024

Listasafn Ísafjarðar

Yfirskrift sýningarinnar Framtíðarfortíð (2023) er fengin úr heiti á myndlistarverki eftir Kristin E. Hrafnsson. Í hluta verksins má lesa setninguna Framundan: endalaus fortíð. Stafagerðin gefur til kynna að hún sé skrifuð af barni sem er nánast við upphaf ævinnar. Að baki: endalaus framtíð er annar hluti þessa sama verks og lokar sýningunni. Sú setning er rituð af gamalli, þjálfaðri hendi sem er að ljúka sinni lífsgöngu. Setningarnar í verkinu eru skrifaðar af raunverulegum manneskjum, hvorri á sínum enda ævinnar. Hver erum við? má spyrja. Erum við þau sömu ævina á enda?

Sýningin er haldin til að fagna 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar.

Valin hafa verið verk úr safneign Listasafns Íslands eftir listamenn sem velta fyrir sér hugtökum eins og sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðar og hvað það þýðir að vera þjóð. Er þjóðin sú sama nú og hún var fyrir 80 árum? Breytist hún eins og manneskjan breytist á æviskeiði sínu?

Á sýningunni verður meðal annars verk eftir Ólöfu Nordal en hún hefur beint sjónum að íslenskri menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar. Í verkaröðinni Das Experiment Island (2012) dregur hún fram í dagsljósið umfangsmikið lífsýnasafn dr. Jens Pálssonar (1926–2002), prófessors við Háskóla Íslands, sem stundaði mannfræðilegar rannsóknir á lifandi Íslendingum á síðari hluta 20. aldar.

Með myndbandsverkinu Nýlendan (2003) eftir Ragnar Kjartansson má segja að annar tónn sé sleginn á sýningunni. Þar sést hvernig Íslendingurinn, sem leikinn er af listamanninum sjálfum, er húðstrýktur af dönskum draugfullum nýlenduherra.

Höggmyndin Höfrungahlaup (1983) eftir Ragnar Kjartansson eldri sýnir börn að leik og dregur athygli áhorfandans að svæðinu fyrir utan safnið þar sem annað verk eftir sama höfund er staðsett, Minnisvarði ísfirskra sjómanna. Verkið var vígt fyrir 50 árum, þjóðhátíðarárið 1974, og sýnir tvo sjómenn, annan ungan en hinn gamlan, að draga vörpu. Á undirstöðu minnisvarðans má lesa: „Til heiðurs þeim sem horfnir eru. Til heilla þeim sem halda á mið.“ Í verkinu og á sýningunni í heild sinni má oft sjá þessa tvo póla mætast; framtíð, fortíð – framtíðarfortíð.

Sýningin verður opnuð á þjóðhátíðardaginn, afmælisdegi Jóns Sigurðssonar sem fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sem tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ.

Framtíðarfortíð Listasafns Íslands og Listasafns Ísafjarðar er fyrsta sýningin í röð sýninga sem marka samvinnu Listasafns Íslands og sýningarstaða á landsbyggðinni.

Listasafn Ísafjarðar

17.6.2024 19.10.2024

Listamenn

Birgir Andrésson
Borghildur Óskarsdóttir
Guðjón Ketilsson
Kristinn E. Hrafnsson
Libia Castro & Ólafur Árni Ólafsson
Ólöf Nordal
Ragnar Kjartansson
Ragnar Kjartansson eldri
Roni Horn

Sýningarstaður

Listasafn Ísafjarðar
Safnahúsið Eyrartúni
400 Ísafjörður

Ljósmynd

Ólöf Nordal
Das Experiment Island IV, 2012
LÍ 9438

Í samvinnu með

Listasafn Ísafjarðar

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17