Grandalaus viðföng

Agnieszka Polska

25.1.2026 — 17.5.2026

Listasafnið

Sýning pólska listamannsins Agnieszku Polska (f. 1985) er hluti af röð vídeóinnsetninga sem Listasafn Íslands hefur sett upp á síðustu tveimur árum, en verk hennar hafa undanfarið hlotið mikla alþjóðlega hylli. Á sýningunni Grandalaus viðföng er sjónum beint að fallvaltleika tilverunnar á tímum þegar samband manneskjunnar, tæknikerfa og náttúru tekur miklum breytingum. Agnieszka Polska ber sérlega gott skynbragð á félagsfræði tilfinningahagkerfisins; hvernig ónáttúruleg öfl og aðstæður endurmóta tilfinningar okkar, líkamsstarfsemi og meðvitund.

Í verkinu Longing Gaze (Augnaráð löngunar) (2021-22) tekst listakonan á við þversögnina á milli mannlegrar nándar og innrásar eftirlitstækninnar í einkalíf okkar. Myndin var gerð í kjölfar heimsfaraldursins 2020-21 og fjallar um það að sæta einangrun þvert á eigin vilja, ferðahöft og skortinn á líkamlegri snertingu sem einkenndi tíma samkomutakmarkana, og um aukin stafræn samskipti sem þeim fylgdu.

The Book of Flowers (Bók blómanna) (2023) er vísindaskáldverk unnið upp úr fundnu myndefni – 16mm myndskeið þar sem sjá má samklipp myndbrota frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar af blómstrandi plöntum  sem hefur verið umbreytt með gervigreindartækni. Úr verður framandleg náttúrulífsmynd um samlífi mannfólks og flóru sem opnar fyrir okkur nýjan veruleika þar sem mannlegu ímyndunarafli er fléttað saman við vélræna nálgun. 

Í list Agnieszku Polska mætast forn sagnahefð og virði mannlegrar reynslu. Hún nýtir sér nútímamyndtækni á borð við upptökur, vídeómiðilinn, ljósmyndir og hreyfimyndir. Iðulega vinnur hún með fundið myndefni sem hún afbakar og umbreytir, gjarnan með aðstoð gervigreindar. Umhverfishljóð, tónlist og frásögn fléttast saman við ljóðrænar kvikmyndasögur hennar.

Um listamanninn

Agnieszka Polska fæddist árið 1985 í Lublin í Póllandi. Hún hefur sýnt víða um heim, m.a. á MoMA og New Museum í New York, Centre Pompidou í París, Tate Modern í London og á Hirshhorn Museum í Washington, D.C. Einkasýningar á verkum hennar hafa verið haldnar í Hamburger Bahnhof í Berlín, Muzeum Sztuki Nowoczesnej í Varsjá, M HKA í Antwerpen, Frye Art Museum í Seattle, Nottingham Contemporary og Salzburger Kunstverein. Hún tók þátt í 57. Feneyjatvíæringnum í myndlist, 11. Gwangjutvíæringnum, 19. og 24. Sydneytvíæringnum, 14. Sjanghætvíæringnum og 13. Istanbúltvíæringnum. Árið 2017 hlaut hún Preis der Nationalgalerie í Berlín. Hún býr nú og starfar í Berlín.

Salur

1

25.1.2026 17.5.2026

Sýningarstjóri

Pari Stave

Kynningarmynd

Agnieszka Polska

Book of Flowers (Bók blómanna), 2023

stilla úr vídeói

með leyfi listamannsins

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17