Hvalstöð

Woody Vasulka

25.4.2026 — 10.5.2026

Listasafnið

Myndin Hvalstöð eftir Woody Vasulka er tólf mínútna mynd sem sýnir íslenska hvalverkunarmenn að störfum í hvalstöðinni í Hvalfirði árið 1964.

Eftir útskrift úr kvikmyndadeild FAMU háskólans í Prag, fékk Bohuslav „Woody“ Vašulka 35 mm myndavél og svarthvíta filmu frá skólanum til að gera heimildarmyndir. Sama ár ferðaðist Woody til Íslands með Steinu Briem Bjarnadóttur, íslenskum fiðluleikara sem hann hafði kynnst í Tékkóslóvakíu árið 1964 og kvæntist síðar. Á meðan á dvöl þeirra á Íslandi stóð vann Woody að tveimur kvikmyndum með Steinu, sem aðstoðaði við gerð myndanna, og tékkneska ljósmyndaranum Miroslav Filip sem kvikmyndaði. Fyrri myndin var Síldarvertíð á Seyðisfirði og sú seinni Hvalstöð.

Woody og landi hans Miroslav „höfðu eðlilega áhuga á sjávarútvegi, þar sem þeir komu frá landi sem ekki liggur að sjó,“ rifjar Steina upp, en hún fylgdi kvikmyndagerðarmönnunum um allt land. Þeir heilluðust af því hvernig hvalir voru flensaðir á vinnsluplaninu í Hvalfirði. „Tékkar hafa ákveðna andúð á drápi,“ segir Steina. „Þeim var brugðið við að sjá dýrið skorið upp“. Áhugavert er að myndin tekur enga afstöðu til hvalskurðarins og er það viljandi gert. Þar sem Woody kom frá landi undir sovéskum áhrifum vildi hann gera kvikmyndir sem beittu ekki áróðursaðferðum kvikmynda. Þvert á móti vildi hann láta myndirnar tala sínu máli. Tónlistin í myndinni sem samin er af Josef Ceremuga (tékkneskur, 1930-2005), undirstrikar nálgun listamannsins sem er að forðast tilfinningasemi. Með beinni, rökrænni framsetningu myndefnis er áhorfendum látið eftir að mynda sér eigin skoðanir á veruleika hvalveiðiiðnaðarins.


Listasafnið

25.4.2026 10.5.2026

Kynningarmynd

Woody Vasulka, stilla úr myndinni Hvalstöð, 1964. Birt með leyfi Vausulka Foundation og BERG Contemporary.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17