Ummyndlingar
James Merry
31.5.2026 — 4.10.2026

James Merry hefur á síðasta áratug skapað grímur sem eru í raun umbreytingarafl, driffjöður í listgjörningum og gátt að breyttri sjálfsmynd. Í brennipunkti sýningarinnar er augnablikið þegar hamskiptin verða – þegar formið og sjálfið flæða saman. Ummyndlingar er fyrsta yfirlitssýningin á verkum Merrys en þar verða rúmlega áttatíu verk.
Grímurnar bera vitni um einstakt handbragð þar sem blandað er saman hefðbundnum aðferðum og öðrum nýstárlegri; útsaumur, málmsmíði, þrívíddarprentun, silfursmíði og gagnvirk, stafræn verk. Úr verður sveigur síkvikra sköpunarverka er veita okkur djúpstæða innsýn í óbilandi hrifningu Merrys á lífríkinu, sem og áhuga hans á fornleifafræði og fornum helgisiðum.
Margar af grímunum á sýningunni skapaði listamaðurinn fyrir Björk Guðmundsdóttur en þau hafa átt langt samstarf. Á sýningunni verða einnig verk sem unnin hafa verið fyrir aðra listamenn eins og Tildu Swinton og Iris van Herpen. Sum þessara verka hafa áður verið sýnd á listviðburðum og hátískusýningum en hér gefst einstakt tækifæri til að upplifa grímurnar sem sjálfstæð verk.
Salur
4
31.5.2026 — 4.10.2026
Sýningarstjóri
Pari Stave
Kynningarmynd
James Merry
Greenman, 2017
vír og perlur
með leyfi listamannsins
©Tim Walker

