Korriró og dillidó

Ásgrímur Jónsson

1.1.2020 — 23.12.2021

Ævintýrin gerast enn! Myndheimur íslenskra þjóðsagna og ævintýra sem Ásgrímur Jónsson skapaði með verkum sínum er sannkallaður töfraheimur.

1.1.2020 23.12.2021

Sýningarnefnd og höfundar texta

Birta Guðjónsdóttir

Dagný Heiðdal

Rakel Pétursdóttir

Ragnheiður Vignisdóttir

Álfar, tröll og draugar, sem lifað höfðu í hugskoti þjóðarinnar í rökkri baðstofunnar, tóku á sig skýra mynd í verkum Ásgríms, en hann sýndi slík verk í fyrsta sinn á Íslandi árið 1905. Þjóðsagnamyndir Ásgríms fengu góðan hljómgrunn og í blaðaskrifum um sýninguna er því fagnað að í fyrsta sinn hafi íslenskur listmálari tekist á við að túlka þjóðsögurnar. Mikil sátt virðist hafa ríkt um útlit álfa og trölla í meðförum Ásgríms, svo ætla má að listamanninum hafi tekist að fanga þá mynd sem landsmenn höfðu skapað í huga sér af þessum fyrirbærum. Þjóðsagnamyndirnar eru í dag hluti af einstökum menningararfi sem Listasafn Íslands varðveitir.

Sýningin Korriró og dillidó á vinnustofu Ásgríms í íbúðarhúsi hans við Bergstaðastræti veitir kærkomið tækifæri til að kynnast þeim einstaka ævintýraheimi skrautbúinna álfa og ógnvekjandi trölla sem Ásgrímur Jónsson túlkaði af mikilli einlægni og ástríðu. Á sýningunni er hægt að hlusta á lestur nokkurra þjóðsagna bæði á íslensku og ensku sem bæði ungir og aldnir, fjölskyldur eða hópar geta notið í þeirri einstöku umgjörð sem heimili listamannsins er.

Í safneign Listasafns Íslands eru rúmlega 1.000 verk sem tengjast efni þjóðsagna og ævintýra og í teiknibókum Ásgríms Jónssonar eru yfir 2.000 teikningar sem að stórum hluta sækja myndefni í þennan sagnabrunn. Á sýningunni í Ásgrímssafni má sjá brot af því fjölbreytta safni þjóðsagnamynda sem Ásgrímur Jónsson lét eftir sig, bæði olíu- og vatnslitamálverk auk teikninga.

Þar á meðal túlkun Ásgríms á sögunum Una álfkona, Nátttröllið, Gissur á botnum, Búkolla, Mjaðveig Mánadóttir, Djákninn á Myrká og „Horfðu í glóðarauga mitt, Gunna“. 

Korriró og dillidó

17.12.2021 — 31.12.2023

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17