Sjávarblámi

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson

24.1.2026 — 10.5.2026

Listasafnið
Hvalur

Hvernig getur myndlistin skapað nýja sýn á heiminn, sjónarhorn sem eru ekki hugsuð út frá manninum einum heldur öllum hinum lífverunum? Á sýningunni Sjávarblámi bregða listamennirnir Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson ljósi á flókin tengsl manna og hvala.

Í rúma tvo áratugi hafa þau Bryndís og Mark verið í fararbroddi þverfaglegra rannsókna á siðferðilegum álitamálum er lúta að sambandi ólíkra tegunda; viðfangsefni sem verður sífellt brýnna í skugga aldauða tegundanna.

Þau skoða samskipti fólks og dýra með hliðsjón af rannsóknum vísinda- og fræðimanna úr ólíkum greinum og fjalla um áhrifin sem vistfræðilegir, menningar- og félagslegir þættir hafa á mannleg og meira en mannleg atferli og vistkerfi.

Í grafíkverkum sínum, vatnslitamyndum, skúlptúrum, hljóðinnsetningum og myndbandsverkum opna Bryndís og Mark samtal um viðkvæmt viðfangsefni sem byggir á menningarsögulegri orðræðu og táknfræðilegum vísunum.

Á sýningunni Sjávarblámi einbeita þau sér að lífi tiltekinna hvala sem þau hafa fylgst með, ýmist í gegnum frásagnir annarra eða milliliðalaust í vettvangsferðum á Skjálfanda. Þau bregða upp þversagnarkenndri mynd, annars vegar af tilfinningalegum viðbrögðum mannfólksins við hvalreka, og hins vegar deilum um hvalveiðar við Ísland. Á þessum sérkennilegu tímamótum skapast tækifæri til að endurmeta hið flókna og mótsagnakennda samband mannfólks og hvala.


Mynd:
Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson
Hrefna, Álftanes, Ísland, 2024 (úr seríunni Hvalreki)
Blekteikningar á pappír
Í eigu listamannanna


Salur

3

24.1.2026 10.5.2026

Sýningarstjóri

Æsa Sigurjónsdóttir

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17