Staðarform

Donald Judd og Hörður Ágústsson

30.1.2026 — 17.5.2026

Listasafnið

Arkitektúrteikningar tveggja listamanna

Í arkitektúrteikningum þeirra Donalds Judd (1928–1994) og Harðar Ágústssonar (1922–2005) kallast á viðleitni tveggja listamanna til að skilja og lýsa byggingalist.

Skissur Judd varpa ljósi á þá arkitektúrhugsun sem hann beitti við að umbreyta og gera upp byggingar á landareign sinni í Marfa, Texas, sem og við önnur tengd verkefni. Teikningarnar bregða gjarnan upp mynd af hefðbundnum húsakosti þar um slóðir, svo sem sveitabæjum og útihúsum, byggingum á vegum hersins og aðferðum við að byggja úr leir. Teikningar Harðar birta okkur aftur á móti íslenskar byggingar á borð við torfbæi, verbúðir og timburkirkjur. Judd notaði teikningar sem uppsprettu hugmynda um það sem mögulegt væri að byggja, en Hörður teiknaði aftur á móti til þess að fanga það sem þegar hafði verið byggt.

Frá níunda áratug síðustu aldar sótti Donald Judd Ísland reglulega heim og heillaðist af bókmenntum landsins, landslagi, sögu, list og arkitektúr. Hörður Ágústsson var listamaður, grafískur hönnuður og fræðimaður sem helgaði stóran hluta starfsferils síns rannsóknum og skrásetningu á íslenskri byggingarlist.

Donald Judd kynntist Herði snemma á tíunda áratug síðustu aldar og hreifst af rannsóknum hans á íslenskri byggingarlist. Í kjölfarið tók hann til við að undirbúa sýningu á verkum Harðar hjá Smithsonian Institution í Bandaríkjunum, en andlát Judd árið 1994 kom í veg fyrir að af sýningunni yrði.

Í verkunum á þessari sýningu birtist arkitektúrhugsun tveggja listamanna sem báðir kunnu að meta fágaðar og skilvirkar útfærslur sem ríma vel við umhverfi og aðstæður.

Salur

2

30.1.2026 17.5.2026

Sýningarstjóri

Gavin Morrison

Kynningarmynd

Donald Judd, teikning fyrir Casa Morales, 6. september, 1977. Judd Foundation.

Hörður Ágústsson, Stóru – Akrar, 1966. Í eigu Þjóðskjalasafns Íslands.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17