Tímaflakk

Steina

4.10.2025 — 11.1.2026

Listasafnið

Steina: Tímaflakk

Steina er sannur frumkvöðull í stafrænni miðlun og hefur haft djúpstæð áhrif á margar kynslóðir listafólks um heim allan. Nú snýr Steina aftur til heimahaganna þegar haldin verður fyrsta stóra yfirlitssýning hennar á Íslandi.

 Í rúmlega hálfa öld hefur Steina búið til vídeóverk, gjörninga og innsetningar. Með skapandi nálgun við möguleika rafeindatækninnar hefur hún rannsakað það sem hún kallar sjálf „vélsýn“. Steina fæddist árið 1940, ólst upp í Reykjavík og lagði stund á fiðluleik. Árið 1969 tók Steina sér Sony Portapak-myndbandsupptökuvél í hönd, nýstárlegt ferðatæki, og tók að gera tilraunir með þennan nýja miðil. Á sýningunni Steina: Tímaflakk er farið yfir verk listakonunnar allt frá upphafi, með áherslu á hlutverk leiks og hljóðs í hinum framsæknu sköpunarverkum hennar. Steina er brautryðjandi sem reynir sífellt á þanþol mannlegrar skynjunar og huglægni. Hún hefur enda lýst því sem skyldu sinni að miðla því með auga tækninnar sem okkur er annars hulið.[SG1] 

 Elstu verkin sem hér má sjá skapaði Steina með lífsförunauti sínum, hinum tékknesk-íslenska Woody Vasulka (1937–2019), á meðan þau bjuggu í New York-borg. Steina og Woody voru bæði heilluð af eiginleika myndmerkisins (e. video signal) og smíðuðu vélbúnað sem gat afbakað myndmerkið og stýrt því. Steina og Woody voru einnig virk í því framsækna samfélagi sem myndaðist í kringum nýmiðlalistir í Buffalo, New York, þar sem þau bjuggu á áttunda áratugnum. Árið 1980 fluttu þau til Nýju-Mexíkó og Steina drakk í sig víðáttur eyðimerkurinnar. Umhverfið í vídeóverkum hennar varð alltumlykjandi og líkti eftir mikilúðlegu landslagi suðvesturríkjanna sem og Íslands. Í innsetningum sínum eftir níunda áratuginn hefur Steina notast við marga skjái og fjölda rása en þannig raungerir listakonan það sem hið mennska auga fær ekki greint.

 Sýningin Tímaflakk ber glöggt vitni um hina óttalausu þúsundþjalanálgun Steinu við nýmiðla. Í verkum hennar birtist framsækinn samruni þess rafræna og náttúrunnar, þó ætíð með áherslu á mikilvægi þess að leika sér. Steina þýðir tóna yfir í sjónræna vídd á sinn einstaka hátt og með viðleitni sinni til þess að slá mannsauganu við hefur henni tekist að skapa rafræna paradís þar sem við fáum að skynja þá ljóslifandi en ósýnilegu orku sem býr jafnt í vídeótækninni sem og náttúrufyrirbrigðum.

 Steina: Tímaflakk er skipulögð af MIT List Visual Arts Center í samstarfi við Buffalo AKG Art Museum. Sýningarstjórar eru Natalie Bell hjá MIT List Visual Arts Center og Helga Christoffersen hjá Nordic Art and Culture Initiative, Buffalo AKG Art Museum. Aðrir sýningarstjórar eru þau Markús Þór Andrésson, Listasafni Reykjavíkur, og Pari Stave, Listasafni Íslands.


Steina Vasulka, ljósmynd © Friðgeir Trausti Helgason 

Steina (fædd Steinunn Briem Bjarnadóttir, 1940) lærði fiðluleik í Reykjavík og Prag, og flutti til New York árið 1965 með manni sínum, Woody Vasulka. Í lok sjöunda áratugarins hóf hún að einbeita sér að myndbandsverkum og stofnaði árið 1971 The Electronic Kitchen (síðar The Kitchen), sem var goðsagnakenndur sýningar- og samkomustaður fyrir hljóð- og myndbandslistamenn í New York. Hún flutti til Buffalo árið 1973 þar sem hún þróaði vinnu sína að myndlist og tæknirannsóknum enn frekar. Frá árinu 1980 hefur hún búið í Santa Fe í Nýju Mexíkó, sýnt reglulega víða um heim og eru verk hennar nú álitin lykilþáttur  þegar kemur að sögu vídeólistar.

Vörur tengdar Steinu í safnbúð Listasafns Íslands

Salur

1

&

2

&

3

&

4

4.10.2025 11.1.2026

Skipuleggjandi

MIT List Visual Arts Center í samvinnu við Buffalo AKG listasafnið

Sýningarstjórir skipuleggjanda

Helga Christoffersen, Buffalo AKG listasafninu

Natalie Bell, MIT List Visual Arts Center

Sýningarstjórir á Íslandi

Markús Þór Andrésson, Listasafn Reykjavíkur

Pari Stave, Listasafn Íslands

Kynningarmynd

úr Noiselfields, 1974 eftir Steinu og Woody Vasulka
Birt með leyfi listamannsins, BERG Contemporary og Vasulka Foundation.


Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17