Kjarval á Austurlandi

Skaftfell listamiðstöð

17.6.2025 — 4.10.2025

Skaftfell listamiðstöð á Austurlandi

Kjarval á Austurlandi er sýning á vegum Listasafns Íslands sem unnin hefur verið í samstarfi við Skaftfell, listamiðstöð á Austurlandi. Á sýningunni eru landslagsmyndir frá Austurlandi eftir Jóhannes S. Kjarval (1885-1972), flestar úr fórum Listasafns Íslands. Á Borgarfirði eystri eru æskustöðvar Kjarvals og þangað lagði hann oft leið sína á fullorðinsárum og sótti þá efnivið verka sinna til hins tignarlega landslags á Austurlandi. Verkin á sýningunni spanna tímabilið frá 1919 til 1960; olíumálverk sem og vatnslita- og grafíkmyndir. Sum verkanna birta sýn Kjarvals á þekkjanlega staði, svo sem Dyrfjöll og Strandatind á Seyðisfirði, en önnur skírskota til alþýðutrúar og birta ímyndunarauðgi listamannsins og tilraunahneigð í efnistökum.

Jóhannes S. Kjarval er einn af frumherjum íslenskrar nútímamyndlistar. Oft er sagt að þessi ástsæli listamaður hafi opnað augu Íslendinga fyrir sérstæðri fegurð landsins og þá ekki síst þeirri fegurð sem finna má við hvert fótmál. Kjarval stundaði nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn árin 1913–1917 og bjó í Danmörku næstu ár. Árið 1922 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni aftur til Íslands en hann dvaldi einnig í skemmri tíma á Englandi, Ítalíu og í Frakklandi.

 Afstaða Kjarvals til stílhugtaksins var frjálsleg og brá hann fyrir sig ýmsum stílbrigðum eftir því hvað viðfangsefnið leyfði eða kallaði eftir. Hann varð snemma fyrir áhrifum frá táknhyggju (symbólisma) og síðar frá kúbisma þar sem ferhyrnd grunnformin eru áberandi; þau koma snemma fram í verkum Kjarvals og áttu eftir að móta landslagsmyndir hans æ síðan, sérstaklega í hraunmyndunum.

 Inntakið í táknhyggju Kjarvals átti oft rætur sínar í íslenskri þjóðtrú og persónugerði hann ýmsar vættir í slíkum verkum. Á uppvaxtarárunum í Borgarfirði eystri mótaðist ímyndunarafl Kjarvals snemma af örnefnum og sögum sem tengjast álfum og huldufólki og samskiptum þeirra við mannfólk. Álfaborgin í Borgarfirði og álfaborgir af huglægari toga birtast í mörgum verkanna á sýningunni og er ljóst að landslag og menning Austurlands hefur átt drjúgan þátt í tilurð hins sérstæða myndheims Kjarvals.

Skaftfell listamiðstöð á Austurlandi

17.6.2025 4.10.2025

Sýningarstaður

Skaftfell listamiðstöð
Austurvegur 42
710 Seyðisfjörður

Kynningarmynd

Jóhannes S. Kjarval (1885–1972), Dyrfjöll, 1921
LÍ-ÞGIG 439

Sýningarstjórar

Anna Jóhannsdóttir og Pari Stave

Sérstakar þakkir

Andri Björgvinsson, Þorsteinn Kristjánsson, Hafþór Snjólfur Helgason

Í samvinnu með

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17