50 vídeó - portrett

Snorri Ásmundsson

7.8.2014 — 31.8.2014

Listasafnið

Snorri Ásmundsson (1966) sýnir vídeó-portrett í kaffistofu Listasafns Íslands. 

Snorri hefur um árabil tekið einnar mínútu löng vídeó-portrett af listamönnum í nánasta umhverfi sínu og eru það þau verk sem verða nú sýnd í fyrsta sinn á Íslandi. 

Myndbands-portrettin eru gerð á bilinu 2009 til dagsins í dag. Meðal fólks, sem kemur fram í portrettunum, eru Einar Örn Benediktsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Ragnar Kjartansson, Steingrímur Eyfjörð, Erla Þórarinsdóttir, Krummi Björgvinsson, Þorvaldur Þorsteinsson ofl. 

Sem listamaður leitast Snorri Ásmundsson (1966) við að hafa áhrif á samfélagið með opinberum viðburðum og speglun einstaklinga er hafa áhrif á það. Hann gerir tilraunir með að raska ró meðbræðra sinna um margt það sem myndast hefur almennt samfélagslegt samþykki um, veltir fyrir sér þjóðfélagslegum bönnum, s.s. á sviði stjórnmála og trúarbragða, og þenur mörk þeirra með ýmiskonar gjörningum. Samfélagsgjörningar Snorra hafa oft vakið sterk viðbrögð, t.d. þegar hann bauð sig fram til borgarstjórastóls í Reykjavík (2002) og til formennsku í Sjálfstæðisflokknum (2009). Hann bauð sig einnig fram til embættis forseta Íslands (2004), hefur selt landsmönnum aflátsbréf, auglýst eftir líkum til nota í gjörningi, og nú síðast vakti hann athygli fyrir myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann kemur fram í dragi og syngur þjóðsöng Ísraels í dansútgáfu ásamt dansandi vinum sínum, m.a. þroskaheftum ungum mönnum, sem klæddir eru sem strangtrúaðir Gyðingar. 

Vídeósýningarnar á kaffistofunni eru samstarfsverkefni Listasafns Íslands og 700IS Hreindýralands.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)