Viðnám

Samspil myndlistar og vísinda

3.2.2023 — 26.3.2028

Safnahúsið
Ávextir, Fruits, 
Sara Björnsdóttir, LÍ 6210, Ljósmyndun, Mannamyndir, kona

Viðnám er sýning fyrir börn á öllum aldri, þar sem samspil myndlistar og vísinda er í brennidepli. Orðið viðnám getur í daglegu tali þýtt mótspyrna eða andstaða en einnig er orðið notað í sértækri merkingu á sviði eðlisfræði. Þar er það samheiti fyrir rafmótstöðu, sem er tregða rafleiðara við að flytja rafstraum. Viðnám vísar því til leiðni og, í yfirfærðri merkingu, til möguleika okkar á því að láta gott af okkur leiða, til mynda með því að nota myndlistina sem stökkpall fyrir umræður um ólík málefni, svo sem hlýnun jarðar og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

listaverk, íslensk list, íslenskir listamenn, Jón Gunnar Árnason, stál, hjarta, skúlptúr, gormafætur, rafmótur, hljóðgjafi

Jón Gunnar Árnason 1931-1989

Hjartað, 1968

LÍ-7238/238

Á sýningunni er leitast við að draga fram tengingar á milli listaverkanna og orðræðunnar um sjálfbærni eða sjálfbæra þróun, sem er ofarlega á baugi í samfélaginu. Þá gefa verkin okkur tækifæri til að spyrja spurninga um tilveruna, náttúruna og heiminn, svo sem hvernig fólk kýs að lifa lífinu og hvaða áhrif við getum haft. Til að skapa forsendur fyrir góðu lífi þarf að hlúa að fjölmörgum þáttum og ekki síður samspili þeirra. Að lifa lífinu á þann hátt að maður njóti lífsgæða án þess að skerða lífsgæði annarra er lykillinn að sjálfbærni.

Myndlist vekur áleitnar spurningar og getur breytt því hvernig við lítum á heiminn. Í Safnahúsinu er fjölbreytt úrval verka úr safneign Listasafns Íslands sem skoða má í nýju samhengi vísinda og hugmynda um sjálfbærni. Gestir eru hvattir til þess að hugsa um eigin reynslu og upplifun af verkunum. Myndlistin getur hreyft við okkur á óteljandi vegu, hjálpað okkur að sjá hlutina í nýju ljósi og ýtt undir vilja fólks til að taka þátt í að umbreyta samfélaginu í átt að sjálfbærri framtíð, að veita ríkjandi ástandi viðnám.

Málaðir skuggar á gler af fjórum sjómönnum. Fyrir ofan þá fjórar ljósmyndir af sjósköðum. Á gólfinu fyrir framan þá fjórar skálar með lituðu vatni.

Halldór Ásgeirsson 1956-

Frá augnabliki til augnabliks, 1999-2000

LÍ-6244

Loft

Á fjórðu hæð Safnahússins er ferðast um háloftin og fjalllendi Íslands, sem er í stöðugri mótun enda virkt eldfjallasvæði. Eldgosum geta fylgt miklar hamfarir, eins og sagan kennir okkur. Aska og vikur dreifist oft út um allt og berst langar leiðir í lofti, jafnvel umhverfis hnöttinn. Það gerist einkum þegar eldsumbrot eru undir sjó eða jökli en slíkar aðstæður geta leitt af sér kröftug sprengigos. Á líðandi stundu er auðvelt að gleyma eldstöðvunum sem liggja í dvala undir jöklum landsins og stórbrotið landslagið heillar okkur með sínum margbrotnu litbrigðum sem ólík birtuskilyrði kalla fram.

Finna má verk sem sýna íslenska jökla sem hopa nú hratt vegna loftslagsbreytinga en sumir þeirra hafa þegar horfið á síðustu árum og áratugum og fleiri eru við það að hverfa. Mælingar sýna að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum veldur loftslagsbreytingum og afleiðingar þessara breytinga eru meðal annars þær að jöklar bráðna og öfgar í veðurfari aukast á heimsvísu. Á sumum svæðum getur þetta einnig leitt til meiri úrkomu sem sums staðar eykur hættuna á flóðum og skriðuföllum, sem veldur aftur skertum vatnsgæðum og minna framboði af vatni annars staðar.

 Geimvísindi gegna sérstöku hlutverki til að varpa ljósi á stöðu loftslagsmála. Í kringum jörðina sveimar net gervitungla í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð, þaðan sem þau fylgjast með því sem er að gerast á jörðu niðri og senda frá sér upplýsingar um fyrir tilstilli fjarskiptatækni. Rannsóknargögn þeirra sýna með óyggjandi hætti að vegna athafna mannann á síðustu öld hefur hitastig á jörðinni hækkað meira og hraðar en nokkru sinni fyrr. Við horfum upp í himinninn og út í geiminn og getum lært margt um veðurfar og plánetuna okkar með því að rannsaka skýjafar og aðra himinhnetti – tungl, sólir og reikistjörnur – jafnt í Vetrarbrautinni okkar sem í fjarlægum stjörnuþokum.

 

Listamenn sem eiga verk á 4. hæð

Anna Hallin og Olga Bergmann, Ásgerður Búadóttir, Ásgrímur Jónsson, Björg Þorsteinsdóttir, Emanuel Larsen, Finnur Jónsson, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Georg Guðni Hauksson, Guðmunda Andrésdóttir, Guðbjörg Lind Jónsdóttir, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Guðrún Gunnarsdóttir, Hildigunnur Birgisdóttir, Hjörleifur Sigurðsson, Hrafnhildur Arnardóttir, Hreinn Friðfinnsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Reykdal, Júlíana Sveinsdóttir, Kristbergur Pétursson, Kristinn G. Harðarson, Kristín Jónsdóttir, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, Magnús Á. Árnason, Magnús Sigurðarson, Nína Tryggvadóttir, Ólöf Einarsdóttir, Ragna Róbertsdóttir, Steina, Svavar Guðnason, Valgerður Hauksdóttir, Þorbjörg Höskuldsdóttir, Þórarinn B. Þorláksson, Þórdís Erla Zoëga, Þórður Hall.

Þórdís Erla Zoega 1988-

Hringrás, 2022

LÍ-11867

Láð

Landið og náttúran hafa frá fyrstu tíð verið viðfangsefni listamanna og bera verkin á þriðju hæð Safnahússins glöggt vitni um það. Þar má sjá verk sem tengjast jörðinni, líffræðilegum fjölbreytileika, plöntum og dýrum á ýmsan hátt og þá sérstaklega fuglum sem eru langstærsti hluti sýnilegs dýraríkis á Íslandi. Þá er jarðvegurinn sjálfur mjög mikilvægur lífríkinu og ekki síst mönnunum, því að hann er undirstaða allrar matvælaframleiðslu á þurrlendi. Fyrr á tímum bjó fólk í húsum sem voru þannig gerð að ekki var alltaf ljóst hvar landinu sleppti og húsið tók við. Íslenski torfbærinn er gott dæmi um nábýli manns og náttúru þar sem skortur á timbri leiddi til þess að fólk varð við erfiðar aðstæður að nýta til hins ýtrasta þau efni sem finna mátti í umhverfinu.

Sum verkanna sýna fjölbreyttar plöntur og jurtir og ólík afbrigði sömu tegunda. Einnig er hægt að skoða hvernig náttúran breytist í takt við árstíðaskipti. Maðurinn hefur breytt vistkerfinu með gjörðum sínum, ýmist viljandi til að laga það að þörfum sínum, svo sem í landbúnaði, eða óviljandi, til að mynda með mengun umhverfisins. Með auknum umsvifum mannanna og með aukinni tækni eru þessar breytingar orðnar meiri en nokkru sinni fyrr. Afleiðingarnar eru afdrifaríkar fyrir náttúruna.

Listamenn sem eiga verk á 3. hæð

Ásgrímur Jónsson, Ásta Ólafsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson,Daníel Magnússon, Eggert Pétursson, Einar Falur Ingólfsson, Finnur Jónsson,Guðrún Vera Hjartardóttir, Gunnhildur Hauksdóttir,Gunnlaugur Scheving, Höskuldur Björnsson, Jón Engilberts, Hulda Hákon, Jón Stefánsson, Jóhannes S. Kjarval, Kristín Jónsdóttir, Magnús Pálsson, Margrét Elíasdóttir, Kristín Jónsdóttir, Ólafur Elíasson, Ólöf Nordal, Róska, Sara Björnsdóttir, Sigga Björg Sigurðardóttir, Sigríður María Gunnarsdóttir, Sigurður Guðmundsson, Sigurlaug Jónasdóttir,Steina, Þórarinn B. Þorláksson.

Lögur

Hafið veitir mörgum listamönnum innblástur til listsköpunar, líkt og sjá má á annarri hæð Safnahússins. Sumir fjalla um fegurð þess meðan aðrir skoða hvernig það ýmist gefur eða tekur. Heimshöfin eru öll tengd og þekja meira en 70% af yfirborði jarðar. Hafið knýr hnattræn kerfi sem gera fólki kleift að búa á jörðinni. Fiskveiðar voru lengi helsti atvinnuvegur Íslendinga og í aldanna rás hafa sjómenn barist við öldurót jafnframt því að draga að landi lífgjafa þjóðarinnar. Slíkt starf er ekki hættulaust og af því hafa hlotist ótal sjóskaðar og manntjón. Þannig móta hafið og auðlindir þess menningu okkar í dag jafnt sem fyrr á öldum.

Í verkunum birtist ólík afstaða til hafsins þar sem manneskjan er ýmist hluti af náttúrunni eða drottnar yfir henni. Samband manna við hafið hefur breyst og mótast með vitneskju okkar um viðkvæmt jafnvægi náttúrunnar.

Hafið er fullt af lífverum, allt frá agnarsmáum örverum til stærstu dýra jarðarinnar. Með aukinni mengun af mannavöldum hefur magn koltvísýrings í andrúmsloftinu aukist. Það veldur aukinni kolefnisbindingu í sjó. Áhrif loftslagsbreytinga á hafið eru víðtæk, allt frá súrnun sjávar og breyttum hafstraumum til hækkandi sjávarborðs og taps á líffræðilegum fjölbreytileika í sjónum og á strandlengjunni.

Listamenn sem eiga verk á 2. hæð

Birgir Andrésson, Birgir Snæbjörn Birgisson, Björg Þorsteinsdóttir, Edvard Munch, Finnur Arnar Arnarson, Finnur Jónsson, Gjörningaklúbburinn, Guðmundur Benediktsson, Gunnlaugur Blöndal, Gunnlaugur Scheving, Halldór Ásgeirsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hildur Hákonardóttir, Hólmfríður Árnadóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Gjörningaklúbburinn, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hreinn Friðfinnsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Júlíana Sveinsdóttir, Karl Kerúlf Einarsson Dunganon, Kristbergur Pétursson, Kristinn G. Harðarson, Kristín Jónsdóttir, Magnús Sigurðarson, Sindri Leifsson, Valtýr Pétursson.

Lögmál

Listamenn hafa alla tíð unnið með ólík umfjöllunarefni. Ekkert er listamanninum óviðkomandi. Á fyrstu hæð Safnahússins er tekist á við hugmyndir sem tengjast undirliggjandi kröftum og lögmálum heimsins sem falla innan sviðs eðlis- og efnafræði en túlka má myndrænt með stuðningi myndlistarinnar, sér í lagi abstraktlistar. Þetta gildir jafnt um hugmyndir eðlisfræðinga um titrandi strengi, óreiðukenninguna og bylgjufræði, sem og staðreyndir um segulsvið jarðarinnar.

Skapandi og greinandi hugsun einkennir vinnu bæði lista- og vísindamanna. Á sama hátt og vísindin kunna að veita listamönnum innblástur getur listaverk dregið fram einstök og oft ófyrirsjáanleg sjónarhorn sem ögra vísindalegum hugmyndum og forsendum. Svo kann að virðast sem menning lista og vísinda sé ólík: litið er á vísindamenn sem hlutlæga og fulla skynsemi en listamenn sem huglæga, með djúpt innsæi. Stundum er látið sem þessir hugarheimar útiloki hvor annan en það er alls ekki alltaf raunin.

Ekkert í heiminum stendur eitt og sér. Sérhver hlutur er hlekkur í keðju og tengist þannig öllum hinum hlekkjunum. Þessi keðja alheimsins verður að haldast órofin. Keðjuverkunin sameinar alla hluti og ferli í eina heild og skapar þannig forsendur fyrir jafnvægi. Allir hlutir í alheiminum, þar á meðal mannslíkaminn, eru samsettir úr orku, sem tengist og kemur saman í lokuðum hringrásum. Lífríki jarðarinnar er sömuleiðis háð keðjuverkandi öflum sem virka eins og gangverk tannhjóla. Ef eitt tannhjólanna verður fyrir varanlegu hnjaski, þá raskast jafnvægið.

Listamenn sem eiga verk á 1. hæð

Anna Rún Tryggvadóttir, Davíð Örn Halldórsson, Dodda Maggý, Eirún Sigurðardóttir, Erla Þórarinsdóttir, Eyborg Guðmundsdóttir, Finnur Jónsson, Gerður Helgadóttir,Guðmunda Andrésdóttir, Jóhannes S. Kjarval, Jón B.K. Ransu,Karl Kvaran, Kristinn E. Hrafnsson,Kristján Guðmundsson, Pétur Thomsen, Libia Castro og Ólafur Ólafsson, Louisa Matthíasdóttir,Magnús Helgason, Sigrid Valtingojer, Sigurður Árni Sigurðsson, Tumi Magnússon, Þorvaldur Skúlason.

Leikur

Í kjallara Safnahússins má kynnast heimi þjóðsagna og ævintýra sem hafa varðveist í munnlegri geymd öldum saman. Ævintýri eru stundum dularfull vegna þess að í þeim blandast hið ótrúlega saman við það sem virðist hversdagslegt og alveg eðlilegt. Þjóðsögur og ævintýri hafa lengi þjónað þeim tilgangi að skemmta fólki, fræða það og jafnvel hræða og eru tröllin oft og einatt táknmyndir óútreiknanlegrar náttúrunnar.

Með því að rýna í ævintýri er hægt spegla margs konar sterkar tilfinningar sem við finnum fyrir í lífi nútímamannsins. Hlutverk persóna í ævintýrum eru fjölbreytt. Góðviljaðir álfar og huldukonur geta birst og leiðbeint afvegaleiddu fólki. En í ævintýrum leynast líka skúrkar sem stundum strá þyrnum á veg mannanna. Oftast fær skúrkurinn makleg málagjöld og söguhetjan lifir hamingjusöm til æviloka.

Listamaður sem á verk í kjallara Safnahússins

Ásgrímur Jónsson

Safnahúsið

3.2.2023 26.3.2028

Sýningarstjóri

Ásthildur Jónsdóttir

Sýningarnefnd

Ásthildur Jónsdóttir, Dagný Heiðdal, Harpa Þórsdóttir, Guðrún Jóna Halldórsdóttir, Ragnheiður Vignisdóttir

Sýningarhönnuður

Axel Hallkell Jóhannesson

Umsjón með fræðslu og viðburðum

Ragnheiður Vignisdóttir

Markaðs- og kynningarmál

Guðrún Jóna Halldórsdóttir

Tæknimál og ljósmyndun

Sigurður Gunnarsson

Forvarsla

Ólafur Ingi Jónsson

Viðnám

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17