Violin Power I

Vasulka stofa

8.2.2019 — 31.12.2020

Listasafnið

VIOLIN POWER I

Tilkoma handhægra myndbandsupptökuvéla um 1970 fól í sér aukið frelsi fyrir kvikmyndagerðarfólk sem nú gat tekið upp bæði hljóð og mynd í rauntíma. Léttar Sony-upptökuvélar hleyptu nýju lífi í tilraunir listamanna sem nýttu sér tæknina m.a. til að samtvinna listgreinar.

Violin Power I er fyrsta sjálfstæða verk Steinu sem hún sýndi í árdaga The Kitchen, sýningarsalar, leikhúss og tilraunastofu sem þau hjónin Steina og Woody Vasulka ráku í aflögðu eldhúsi í kjallara Broadway Central-hótelsins í New York. Verkið vann hún á árunum 1970–1978. Í þessu sjálfstæða verki getum við fylgst með þróun hennar sem listamanns frá því hún á sínum yngri árum æfir sig á fiðluna og dansar síðan gegnum árin, allt þar til hún tekur undir með Bítlunum í laginu „Let it be“ sem æðrulaus þroskaður listamaður. Kaflaskipt stigmögnun og hrynjandi einkenna fjörugt myndskeiðið þar sem dans listakonunnar umbreytist í eins konar táknmynd menningar sem líkja má við óstöðvandi náttúruafl.

Hljóðið er að öllu jöfnu jafn mikilvægt myndefninu sem rekja má til bakgrunns hennar í tónlistinni. Í verkinu endurspeglast það mikla tilrauna- og frumkvöðlastarf sem hér liggur að baki og þakka má bakgrunni Steinu í tónlistinni og þekkingu Woody á verkfræði og kvikmyndagerð. Margar tækninýjungar koma við sögu sem byggja á rannsóknum þeirra á möguleikum miðilsins. Myndin er bjöguð, spegluð eða henni snúið við með það að markmiði að ná fullkominni stjórn á útsendingunni til að fanga hinn eina og sanna rauntíma í augum þeirra hjóna.

Vasulka

Violin Power I var aðeins forsmekkur þess sem síðar varð er hún tók að hemja náttúruöflin með fiðluboganum í verkum þar sem hún tróð upp og stjórnaði bylgjum hafsins í flæðarmálinu, reisti þær upp á rönd svo þær líktust blaktandi gluggatjöldum sem dregin voru frá og fyrir sviðið eftir geðþótta listakonunnar, eða þá hún stoppaði eldgos og lét eldsúluna sogast til baka niður í iður jarðar. Verk hennar hafa skapað ný viðmið í listheiminum og opnað fyrir nýja sýn á samspil menningar og náttúru. 

Steina. Steinunn Bjarnadóttir Vasulka (f. 1940), Violin Power I, 1970–1978
Myndband, 10,04 mín.

5.2.2021 — 9.1.2022

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)