Safneignin


Í Listasafni Íslands er meginsafn íslenskrar myndlistar og nær safneignin einkum yfir list 19. og 20. aldar,  íslenska og erlenda. Í safninu eru helstu lykilverk íslenskrar listasögu á 20. öldinni eftir fremstu listamenn þjóðarinnar. Safneign Listasafnsins er í stöðugum vexti og jafnt bætast við ný verk eftir unga listamenn og verk eldri myndlistarmanna til að þétta og bæta safneignina.

Stofninn í safneign Listasafns Íslands er gjöf sem Björn Bjarnarson (1853-1918) lögfræðingur og síðar sýslumaður safnaði og gaf Listasafninu við stofnun þess árið 1884. Í þeirri gjöf eru verk eftir margra af þekktustu málurum Dana, til dæmis Joakim Skovgaard, Christian Blache og Peter Krøyer. Þar er jafnframt að finna verk eftir norska og sænska málara. Til stofngjafarinnar teljast einnig gjafir sem komu til safnsins á fyrstu árunum eftir stofnun þess  svo sem málverk, tvær höggmyndir auk grafíkverka, öll eftir erlenda listamenn.

Það er síðan í upphafi 20. aldar að safnið fer að eignast sín fyrstu íslensku verk. Íslenskir myndlistarmenn voru ekki margir á þessum árum en þeim fór fjölgandi. Fyrsta íslenska verkið sem safnið eignaðist var verkið Útilegumaður (Útlagar) eftir Einar Jónsson myndhöggvara árið 1904 og næsta var verkið Áning eftir Þórarin B. Þorláksson árið 1911. 

Í safneign Listasafns Íslands eru margar rausnarlegar gjafir frá íslenskum listamönnum og má þar nefna gjöf Finns Jónssonar og Guðnýjar Elísdóttur, dánargjöf Gunnlaugs Scheving, dánargjöf Guðmundar Benediktsonar og dánargjöf Guðmundu Andrésdóttur sem safninu barst árið 2003. Einnig hefur Listasafn Íslands fengið veglegar gjafir frá einstaklingum og metur safnið mikils þann velvilja sem því hefur verið sýndur í gegnum árin. 

Aðgangur að rafrænum gagnagrunni með ljósmyndum og heimildum um öll verk í eigu safnsins eftir íslenska og erlenda listamenn, er á bóka- og heimildasafni, Laufásvegi 12.


 • Safneignin er rúmlega 11.000 verk.
 • Þar af eru rúmlega 2000 verk í safni Ásgríms Jónssonar og rúmlega 400 í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.
 • Erlend verk í eigu safnsins eru um 1.100 eftir 400 listamenn.
 • Íslenskir listamenn sem eiga verk í safninu eru rúmlega 370 talsins.
 • Tæplega 5000 teikningar, þar af rúmlega 4500 eftir íslenska listamenn.
 • Rúmlega 3.800 verk sem tilheyra málaralist. Rúmlega 3.400 eftir íslenska listamenn og þar af rúmlega 1850 olíumálverk og 1.100 vatnslitaverk. 
 • Um 850 grafíkverk. Tæplega 300 eftir íslenska listamenn. 
 • Tæplega 600 skúlptúrar, rúmlega 500 eftir íslenska listamenn.
 • Um 200 bókverk eru í safneigninni eftir innlenda og erlenda listamenn. 
 • Rúmlega 100 ljósmyndaverk, flest eftir íslenska listamenn.
 • Tæplega 200 verk falla undir nýja miðla.
 • Tæplega 50 samklipp, öll nema eitt eftir Íslendinga.
 • Rúmlega 30 textílverk, öll eftir íslenska listamenn.