LISTAVERKASJÓÐUR AMALIE ENGILBERTS

Amalie Engilberts (1934-2007), dóttir listmálarans Jóns Engilberts og Tove Engilberts, ánafnaði Listasafni Íslands að öllum eigum sínum eftir sinn dag. Með dánargjöfinni vildi Amalie heiðra minningu föður síns og að hennar ósk var stofnaður sjóður, Listaverkasjóður Amalie Engilberts, sem skal ráðstafa til kaupa á nýrri íslenskri myndlist. 

Listaverkasjóður Amalie Engilberts er sjálfseignarstofnun og í skipulagsskrá frá 2009 segir m.a.: 

  • Markmið stofnunarinnar er að kaupa nýja, íslenska myndlist.
  • Ráðstafa skal fjármunum sjálfseignarstofnunarinnar þannig að ár hvert skulu keypt verk fyrir 1/10 hluta arfsins, þannig að honum verði að fullu ráðstafað til myndlistarkaupa á 10 árum.
  • Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur mönnum til 5 ára í senn. 
  • Formaður stjórnar er forstöðumaður Listasafns Íslands. Forstöðumaður Listasafns Íslands tilnefndir í stjórnir.
  • Umsjón með listaverkakaupum skal vera í höndum sömu aðila og annast listaverkakaup fyrir Listasafn Íslands.
  • Þegar arfinum hefur verið ráðstafað að fullu skal Listasafn Íslands sýna saman þau myndverk sem keypt hafa verið.