BORGARLANDSLAG

Á síðastliðinni öld þróaðist Reykjavík úr smábæ í borg og ásýnd hennar og mannlífið allt tók stakkaskiptum. Á sama tíma óx og dafnaði íslensk nútímalist og varð Reykjavík og umhverfi hennar í öllum sínum margbreytileika mörgum listamanninum yrkisefni – jafnt götur, hús og fólk. Þegar Ásgrímur sneri heim úr námi frá Kaupmannahöfn árið 1909 málaði hann mikið í Reykjavík, ekki síst að vetrarlagi þegar ekki var greiðfært um landið. Hin löngu sumur og nálægðin við hafið hafði mikil áhrif á Ásgrím og lagði hann sig snemma eftir því að túlka birtuna og áhrif hennar á landið í anda impressjónismans sem hann hafði kynnst á ferðum sínum erlendis. Margar elstu Reykjavíkurmyndanna í safni Ásgríms mætti flokka sem stemningsmálverk – sumar myndanna eru málaðar í skammdeginu, ýmist í tunglsljósi eða snemma morguns á meðan aðrar eru baðaðar kvöldroða.

REYKJAVÍK

Þótt Ásgrímur hafi aðallega túlkað íslenska náttúru í verkum sínum, sýna myndir hans úr Reykjavík að hann hefur haft næmt auga fyrir því myndræna í sínu nánasta umhverfi. Í mörgum mynda sinna túlkar hann áhrif birtunnar á umhverfið og þann andblæ sem mismunandi birta skapar. Á árunum 1909-1915 bjó Ásgrímur og starfaði í hinu reisulega timburhúsi Vinaminni í Grjótaþorpinu í miðbæ Reykjavíkur. Þar hélt hann einnig myndlistarsýningar þar sem myndefnin sýndu gjarnan útsýni út um norðurglugga í Vinaminni, sér í lagi myndir af Esjunni, borgarfjalli Reykvíkinga. Árið 1928 byggði síðan Ásgrímur sér parhús að Bergstaðastræti 74 í félagi við Jón Stefánsson listmálara eftir teikningum Sigurðar Guðmundssonar arkitekts, eins af frumkvöðlum nútímabyggingalistar hér á landi. Þær myndir sem Ásgrímur málaði á efri árum sínum út um gluggann í húsi sínu við Bergstaðastræti sýna flestar myndefni frá Tjörninni og nálgast margar hverjar að vera abstrakt litastúdíur. 

NÁGRENNI REYKJAVÍKUR

Laust fyrir 1930 varð breyting í list Ásgríms – túlkunin varð frjálsari en áður og litameðferðin djarfari. Á þessum árum málaði Ásgrímur margar myndir að vetrarlagi í útjaðri Reykjavíkur og Hafnarfjarðar en í þeim myndum varð túlkunin á áhrifum skammdegisbirtunnar mikilvægari en myndefnið í sjálfu sér. Í vetrarmyndunum teflir hann saman heitum og köldum litum með snöggum pensilstrokum í anda impressjónismans og þar má greina áhrif frá franska málaranum Claude Monet en aðdáun Ásgríms á verkum Monets var mikil. Eitt þekktasta verk Ásgríms frá þessum tíma er Hafnarfjarðarvegurinn frá 1931.