LANDSLAGSMYNDIR

Um aldamótin 1900 átti sér stað umbylting í náttúrusýn Íslendinga sem á rætur að rekja til landslagsmálverka hinna svokölluðu frumherja í íslenskri myndlist, þeirra Ásgríms Jónssonar, Þórarins B. Þorlákssonar, Kristínar Jónsdóttur og Jóhannesar Kjarvals. Þau settu fram nýtt sjónarhorn og viðhorf til náttúrunnar sem tengist fegurðinni án nytjagildis. Allt frá upphafi sögu íslenskrar myndlistar um aldamótin 1900 og fram undir miðja 20. öld var landslag höfuðviðfangsefni íslenskra myndlistarmanna. Ægifögur náttúran, sem hafði verið rómuð í ljóðum rómantískra skálda 19. aldarinnar, varð einskonar ímynd þjóðarinnar á dögum sjálfstæðisbaráttunnar og landslagið þar af leiðandi verðugt viðfangsefni listmálara.

Segja má að Ásgrímur Jónsson hafi verið fyrsti íslenski listamaðurinn sem opnaði augu annarra fyrir fegurð landsins. Hann kenndi sinni kynslóð að meta fegurð landsins í nýju ljósi og hefur sú sýn haft varanleg áhrif á komandi kynslóðir. Í Safni Ásgríms Jónssonar eru um 550 landslagsmyndir, jafnt olíu- sem vatnslitamyndir og eru myndefnin að stórum hluta frá Húsafelli og Þingvöllum þar sem Ásgrímur dvaldist hvað mest er líða tók á ævina. Margar elstu olíumynda Ásgríms eru dökkar og sverja sig í ætt við stemningsmálverk aldamótanna. Um og eftir 1905 fór að birta til á litaspjaldinu hjá honum og má sjá greinileg áhrif frá frönsku impressjónistunum, sem lögðu áherslu á að fanga birtuna, augnabliksáhrifin og hið tæra loft.

ÞINGVELLIR

Í íslenskri myndlist skipa Þingvellir sérstakan sess, vegna fegurðar sinnar og sögu. Frá því að menn fóru að mála úti í náttúrunni á Íslandi, hefur Þingvallasvæðið verið viðfangsefni listmálara og er án efa sá staður þar sem flestir hafa málað. Þingvellir skipa mikilvægan sess í list Ásgríms og má segja að þar hafi hann bæði hafið og endað sinn feril sem landslagsmálari, þó hvorki hafi hann málað sína fyrstu né síðustu landslagsmynd á þeim slóðum. Ásgrímur kom til Þingvalla á öllum tímabilum starfsferils síns og er ásamt Kjarval sá málari sem hefur hvað mest túlkað náttúru staðarins.

Í safni Ásgríms eru um 130 myndir frá Þingvöllum og svæðinu þar um kring. Flestar Þingvallamyndirnar úr safni Ásgríms eru frá síðari hluta starfsævi hans og voru haustlitirnir á Þingvöllum í allri sinni litadýrð Ásgrími afar kært viðfangsefni síðustu árin. Á seinni hluta starfsævi sinnar fór hann að beina athyglinni að hinu nálæga í landslaginu, t.a.m. gróðrinum og vatninu í gjánni, hinu kvika og blæbrigðaríka í náttúrunni sem gat breyst á svipstundu, allt eftir birtunni og vindáttinni.

HÚSAFELL

Í safni Ásgríms eru til um 130 myndir sem hann málaði í Húsafelli og þar um slóðir. Þangað kom hann fyrst til sumardvalar árið 1915 og aftur sumrin 1917 og 1919 og eftir það varð Húsafell sá staður sem hann tók mestu ástfóstri við. Húsafellsmyndirnar í safni Ásgríms eru frá öllum skeiðum á ferli hans en þó flestar frá fimmta áratugnum.

Sumarið 1941 dvaldist Ásgrímur að Húsafelli ásamt vini sínum og gömlum nemanda, Þorvaldi Skúlasyni listmálara, sem var nýsnúinn heim frá námi í Frakklandi. Hinir fersku straumar sem Þorvaldur flutti með sér heim frá París höfðu gríðarleg áhrif á Ásgrím og beindu honum á nýjar brautir í sinni listtúlkun. Breytingin fólst aðallega í því að Ásgrímur fór að þrengja sjónarhornið og athyglin beindist frá hinum víðáttumikla fjallahring að því sem nær honum var. Á þessu tímabili varð Húsafellsskógur að meginviðfangsefni Ásgríms og tilfinningarík náttúruskynjun leiddi hann inn á nýjar brautir þar sem megináherslan var lögð á tilfinningagildi litarins. Myndir Ásgríms úr Húsafellsskógi eru undir sterkum áhrifum frá expressjónisma Vincents van Gogh, en stíl hans kynntist Ásgrímur á skólaárunum í Kaupmannahöfn.

VATNSLITAMYNDIR AF FJÖLLUM

Í íslenskri myndlist skipa vatnslitamyndir Ásgríms Jónssonar sérstakan sess. Allan sinn starfsferil málaði Ásgrímur jöfnum höndum með vatnslitum og olíulitum og leit jafnan á vatnslitamyndir sínar sem fullgild listaverk. Ásgrímur lagði sig snemma eftir að túlka birtuna hér á landi og áhrif hennar á landið og notaði vatnslitina sem miðil til að túlka skynjun sína á ljósbrigðunum í náttúrunni. Árið 1904 byrjaði Ásgrímur að mála með vatnslitum og eftir það vann hann markvisst að því að ná tökum á því vandmeðfarna efni. Fyrstu vatnslitina hafði hann eignast sem ungur drengur á Eyrarbakka um 1890 þegar hann var vikapiltur í Lefolii-versluninni en það var ekki fyrr en hann sneri heim að námi loknu að hann fór að beita þeim að ráði. Í vatnlistamyndunum taldi Ásgrímur sig vera undir áhrifum frá enska málaranum J.M.W. Turner sem hann sá verk eftir á breskri listasýningu í Kaupmannahöfn á námsárum sínum og síðar í Berlín. 

Í safni Ásgríms Jónssonar eru á annað hundrað vatnslitamyndir og meðal þeirra margar sem teljast til þess besta sem eftir hann liggur á því sviði. Elsta mynd sem varðveist hefur eftir Ásgrím er lítil vatnslitamynd af póstskipinu Lauru frá 1896 en í þeirri mynd má sjá að Ásgrímur hafði snemma þroskað með sér tilfinningu fyrir hinni tæru birtu sem átti eftir að verða aðal hans sem vatnslitamálara.