þjóðsagnamyndir
Á fyrri hluta 19. aldar vaknaði sérstakur áhugi á þjóðsögum á Íslandi sem má tengja við rómantísku stefnuna. Hin þjóðlegu sérkenni voru í fyrirrúmi og var mikil áhersla lögð á að upphefja þau. Í kjölfarið var hafin söfnun á íslensku þjóðsögunum sem fram að því höfðu gengið manna á milli sem munnmælasögur og urðu þær mikilvægur þáttur í menningarlegri sjálfsmynd og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Allt frá fyrstu tíð vann Ásgrímur Jónsson jöfnum höndum að landslagsverkum og þjóðsagnamyndum. Hann var fyrsti íslenski myndlistarmaðurinn sem sótti innblástur í þjóðsagnaarfinn og var hann einkar afkastamikill á því sviði. Fjórtán árum fyrir fæðingu Ásgríms kom út fyrra bindi þjóðsagna Jóns Árnasonar, Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, og var hann þeim því vel kunnugur frá barnsaldri.
Í safni Ásgríms Jónssonar eru um 1500 myndir sem tengjast efni íslenskra þjóðsagna og ævintýra, jafnt blýants- sem pennateikningar, vatnslitamyndir og olíumálverk, en í teiknibókum hans eru á þriðja þúsund teikningar og er stór hluti þeirra úr þjóðsögum. Þrátt fyrir að þjóðsagnamyndir hafi verið Ásgrími afar hugleiknar, voru þær þó aldrei í forgrunni á sýningum hans. Þjóðsagnamyndirnar komu hins vegar fyrir almenningssjónir í bókunum Lesbók handa börnum og unglingum árið 1907 og í Nýja stafrófskverinu árið 1909. Bækurnar voru báðar notaðar á sínum tíma sem aðalnámsbækur í lestrarkennslu og voru því myndskreytingar Ásgríms íslenskum ungmennum vel kunnar. Löngu síðar, eða árið 1959, gaf bókaútgáfa Menningarsjóðs út bókina Þjóðsagnabók Ásgríms Jónssonar, myndir frá síðari árum – Íslenzkar þjóðsögur.
Í sýningarhlutanum Þjóðsagnamyndir eru myndirnar flokkaðar eftir ævintýrum, álfasögum, tröllasögum og draugasögum og öðrum frásögnum.
ÆVINTÝRI
Íslendingar eiga langa hefð í sagnagerð og var hér á landi mikið um goðsögur, hetjusögur og víkingasögur. Um 1200 verður fyrst vart svokallaðra ævintýrasagna og hafa íslensku ævintýrin heillað þjóðina allar götur síðan og eru þau ásamt þjóðsögunum mikilvægur hluti af menningararfi okkar Íslendinga. Flest íslensk ævintýri eiga sér hliðstæður í erlendum ævintýrum þó munurinn sé oft mikill, sér í lagi umhverfi sögunnar sem er gjarnan aðlagað íslensku umhverfi. Í verkum Ásgríms Jónssonar er landslag ævintýranna harla íslenskt en þó með ýktari og framandlegri túlkun en hið raunverulega landslag og oft virðist sem sögurnar séu beinlínis sprottnar upp úr landslaginu.
Ævintýrið um Þorstein Karlsson, 1930-35, olía, 67x83 cm
Olnbogabarnið, 1957-58, túsk, 29x41 cm
Þríhöfðaði þursinn (úr sögunni "Hermóður og Háðvör"), án ártals, túsk, 30x45,5 cm
Mjaðveig Mánadóttir, án ártals, túsk og blýantur, 48,5x62,5 cm.Í þjóðsagnamyndunum myndskreytir Ásgrímur sjaldnast atburðarás sögunnar en þess í stað kryfur hann eitt atriði úr sögunni til mergjar og gerir af því ótal myndir. Túlkunin er oft mjög tilfinningarík og öðlast myndin sjálfstætt líf, óháð sögunni. Sagan af Mjaðveigu Mánadóttur var Ásgrími einkar hugleikin en úr þeirri sögu eru til á annað hundrað teikninga í safni hans og sýna þær nánast allar Mjaðveigu í hvítum klæðum sem fanga í klóm risans.
Sigurður kóngsson (úr þjóðsögu), 1916, vatnslitur, 24x35 cm.
Sigurður kóngsson, 1957, túsk og blýantur.Síðasta myndefnið sem Ásgrímur vann að var teikning af Sigurði kóngssyni, gerð fjórum dögum fyrir andlát hans, þann 5. apríl 1958, og sýnir það hversu hugleiknar og kærar íslensku þjóðsögurnar voru honum.
ÁLFASÖGUR
Álfar í íslenskri þjóðtrú eru um margt sérstakir og er orðið notað um sérstakan flokk huldufólks. Svo virðist sem íslensk þjóðtrú geri ekki greinarmun á álfum og huldufólki þar sem þessar nafngiftir hafa verið notaðar um huldar verur í hólum og klettum frá öndverðu. Í íslenskum þjóðsögum er mikið til af lýsingum á samskiptum álfa og manna. Huldufólkinu er gjarnan lýst sem jarðnesku í útliti og klæðaburði en álfarnir eru í litríkari klæðum. Heimkynni huldufólksins eru í jörðu og eru bústaðir þeirra aðallega í hólum, klettum og steindröngum. Álfarnir búa hins vegar í íburðamiklum híbýlum sem oft minna á sagnaveröld ævintýra.
Innan sagnaflokka þjóðsagnanna urðu álfasögur oftast yrkisefni Ásgríms og sumar sögur jafnvel aftur og aftur. Allt frá unga aldri höfðu þjóðsögur verið Ásgrími hugleikið viðfangsefni, hann ólst upp við frásagnir af huldufólki og var ein fyrsta mynd Ásgríms mynd af huldufólkinu í Hróarsholtskletti og kirkju þess í hrauninu.
Álfar (Eyjafjallajökull), 1909, vatnslitur, 24,5x45 cm
Álfakirkja, 1948, túsk, 47,5x59 cm
Álfakirkjan, 1905, vatnslitur, 54,5x71,5 cm
Álfar á ferð, 1905, vatnslitur, 15x22,5 cm
Álfadans, 1908, vatnslitur, 15x22,5 cm
Álfarnir í Tungustapa, 1914, vatnslitur, 55x76 cm
TRÖLLASÖGUR
Flestar íslenskar tröllasögur eru mjög gamlar og margar hverjar eru frá tímum fyrir siðaskiptin. Tröllasögur voru í miklum blóma fram á 17. öld en síðan fer trú manna á þeim að þverra. Á Íslandi hafa tröll verið túlkuð sem náttúruvættir en ekki landvættir. Þau virðast afsprengi náttúrunnar og óbeislaðs afls hennar eins og þau birtast okkur í mörgum þjóðsagnamyndum Ásgríms Jónssonar.
Næst ævintýramyndum Ásgríms að fjölda er sá flokkur þar sem hann tekur fyrir tröllasögur sem gerast á Íslandi. Ásgrími var einkar lagið að teikna tröll enda skipta myndir hans úr sögum um samskipti manna og trölla hundruðum. Þar er ekki aðeins átt við hinar eiginlegu tröllasögur heldur einnig ævintýri ýmiss konar, svo sem Búkollu og fleiri, þar sem skessur og þursar reyna að gera manninum mein.
Náttröllið á glugganum, 1950-55, vatnslitur, 67x100,5 cm
Nátttröllið (riss), án ártals, túsk, 29,5x42 cm.Nátttröllið er eitt af þekktari þjóðsagnaverkum Ásgríms, ekki síst þar sem það birtist í stafrófskveri sem notað var í öllum barnaskólum á fyrstu áratugum síðustu aldar. Í endurminningarbók Ásgríms frá árinu 1956, sem Tómas Guðmundsson skrásetti, segir hann frá uppruna ímyndar tröllsins í Nátttröllinu. Hann hafði þá kynnst manni í vist sinni hjá séra Valdimar Briem á Stóra-Núpi. Þar var maður sem kallaður var Stóri-Gvendur og lýsir Ásgrímur honum sem „heljarmenni að burðum, tröll að vexti og ákaflega ferlegur.“ Ásgrímur segir þennan mann hafa verið fyrirmynd að ásjónu tröllanna í þjóðsagnamyndum sínum upp frá því og fjallaði hann um það myndefni oftar en einu sinni á ferli sínum.
Jökulhlaup - Skessan á steinnökkvanum, 1909, vatnslitur, túsk, 10x16,5 cm
Skessan á steinnökkvanum (riss), án ártals, túsk, 27,5x37,5 cm
Skessan á steinnökkvanum, án ártals, túsk, 29,5x42 cm
Skessan á steinnökkvanum (þríhöfðaði þursinn), um 1957-58, túsk, 29x41 cm
Trunt, trunt og tröllin í fjöllum (etv. Gissur á Botnum), 1916-18, vatnslitur, 24x34 cm
Trunt, trunt og tröllin í fjöllum, 1947, kol, 45,5x60 cm
Trunt, trunt og tröllin í fjöllum (Gellivör?), 1958, túsk, 45x60 cm
Búkolla, 1947, vatnslitur, 28,5x44,5 cm
Púkar flétta reipi úr sandi, 1947, blýantur, vatnslitur, 45x60 cm
Gilitrutt, án ártals, túsk, 45x60 cm
Sagan af Kolrössu krókríðandi (riss), án ártals, blýantur, 25x35,5 cm
Mjaðveig Mánadóttir, 1958, blönduð tækni, 48x69,5 cm
Mjaðveig Mánadóttir, 1957-58, blönduð tækni, 47x61 cm
Mjaðveig Mánadóttir, án ártals, túsk, 29,5x42 cm
Mjaðveig Mánadóttir (riss), án ártals, túsk, 25x32 cm
Mjaðveig Mánadóttir (riss), án ártals, túsk, 26,5x37 cm
Mjaðveig Mánadóttir, án ártals, túsk, 29,5x42 cm
Úr þjóðsögu (menn á hestum mæta tröllskessu), 1946, blönduð tækni, 43x58 cm
Koltrýnusaga: Tröll ríða til brúðkaups, 1955, blýantur, 20x26 cm
Trölla-Láfi, 1945, blönduð tækni, 29,5x44,5 cm
Tröllkonan og hvalrekinn, 1908, túsk, 14,5x22 cm
Jón og tröllskessan, án ártals, túsk, 20,5x27 cm
Smalastúlkan og tröllið, 1908, vatnslitur, 15,5x23,5 cm
Tveir ríðandi menn mæta skessu, án ártals, túsk, 25x32 cm
Tröll (úr sögunni af Mjaðveigu Mánadóttur), án ártals, blýantur, túsk, 28,5x42 cm
DRAUGASÖGUR OG AÐRAR FRÁSAGNIR
Draugasögur eru einn stærsti flokkur þjóðsagna og skiptast þær í sögur af afturgöngum, mönnum sem ganga aftur eftir dauðann, uppvakningum, dauðum mönnum sem eru magnaðir upp með töfrum til ýmissa verka, og fylgjum sem geta stundum líka verið afturgöngur eða uppvakningar. Sterk einkenni íslenskra drauga, sérstaklega fyrir 20. öld, eru þau að draugarnir virðast yfirleitt ekki vera andar heldur eru þeir líkamlegir. Oftar en ekki þurfa lifandi menn að glíma við þá og í sumum tilvikum hafa þeir jafnvel getið börn. Umhverfi og náttúra hafa án efa áhrif á hvernig draugasögur verða til og jafnframt hvernig þær eru sagðar.
Stór flokkur sagna er um afturgöngur sem stjórnast af ást eða hatri í ásóknum sínum og bera þá oft sömu tilfinningar og í lífinu. Ein þekktasta sagan í þeim flokki er Djákninn á Myrká og hefur sú saga orðið skáldum og listamönnum að yrkisefni, bæði vegna frásagnarlistar og nákvæms sjónarhorns. Sagan hafði gríðarleg áhrif á Ásgrím en í safni hans má finna margar myndir þar sem listamaðurinn túlkar söguna á dramatískan og myrkan hátt.
Djákninn á Myrká, 1916-18, vatnslitur, 24x31 cm
Djákninn á Myrká, 1916-18, vatnslitur, 23,5x33,5 cm
Djákninn á Myrká, 1952, túsk, 29,5x42 cm
Djákninn á Myrká, 1905, túsk, 9x17 cm
Djákninn á Myrká, 1902-04, vatnslitur, 13x22,5 cm
Djákninn á Myrká, 1909, vatnslitur, 25x27 cm
Sturluhlaup, 1900, olía, 12x16,4 cm.Eitt elsta verk Ásgríms sem tengist þjóðsögunum er lítið olíumálverk sem ber heitið Sturluhlaup. Verkið málaði Ásgrímur í Kaupmannahöfn árið 1900 og sýnir það atburð í frásögn af Kötlugosi árið 1311 sem birtist í ritinu Um jarðelda á Íslandi eftir Markús Loftsson. Uppistaðan í bókinni eru frásagnir af Kötluhlaupum og Heklugosum frá því að land byggðist og fram til 1880. Frásögnin af Sturluhlaupi var Ásgrími augljóslega hugleikin enda málaði hann annað verk sem byggðist á sögunni á árunum 1908-1909 þegar hann dvaldist á Ítalíu og þriðja verkið ári áður en hann féll frá. Seinasta verkið er frábrugðið fyrri túlkunum hans að því leyti að fólkið í myndinni hefur elst – maðurinn er orðinn eldri og stúlkan er orðin að ungri konu.
Sturluhlaup, 1957, olía, 120x195 cm.