GIFSMYND NÍNU SÆMUNDSSON AF NONNA GEFIN LISTASAFNI ÍSLANDS

Zontaklúbburinn á Akureyri hefur um árabil haldið nafni rithöfundarins Jóns Sveinssonar, eða Nonna á lofti. Á aldarafmæli Nonna, árið 1957, opnaði Zontaklúbbur Akureyrar safn til minningar um hann í gamla Pálshúsinu á Akureyri en þar bjó Nonni hluta úr æsku sinni. Ekki langt frá Nonnahúsi stendur stór bornsstytta af Nonna, sem var afhjúpuð í ágúst 1995 og var það einnig fyrir tilstuðlan Zontaklúbbsins á Akureyri. Frummynd styttunar á Akureyri hefur um árabil verið í eigu klúbbsins sem hefur nú ákveðið að færa Listasafni Íslands verkið að gjöf.

Það var Nína Sæmundsson, myndhöggvari, sem gerði styttuna að Nonna að beiðni Menntamálaráðs árið 1958. Var tilefnið aldaramæli rithöfundarins ári áður og var ætlunin að styttan yrði sett upp á Akureyri. Nína fékk vinnuaðstöðu í Iðnskólanum í Reykjavík og lauk við verkið, standmynd í yfirstærð eða rúmlega 250 cm. Ekki var einhugur um kaupin á verkinu í Menntamálaráði og árið 1964 var ekki enn búið að ganga frá lokagreiðslu til listakonnunar vegna verksins. Ekki var heldur gert ráð fyrir kostnaði við að steypa verkið í varanlegt efni sem gæti staðið úti, en styttan af Nonna er úr gifsi. Ætlunin var að senda gifsmyndina til Kaupmannahafnar til að steypa hana í brons en fjárveiting fékks ekki. Í einhvern tíma var gifsmyndin í kassa í vöruskemmu Eimskipafélagsins og beið flutnings en fór svo á flakk hér innanlands og er óvíst hvar hún var geymd þar til 1977 að styttunni af Nonna komið fyrir í lestrarsal Borgarbókasafnsin í Þingholtsstræti. Um 1982-83 var styttan svo flutt þaðan og endaði í geymslu á Korpúlfsstöðum í ómerktum kassa. Um tíu árum síðar eða árið 1992 var farið að leita að styttunni í tengslum við sýningu í Listasafni Íslands á verkum Nínu Sæmundson. Var það gert fyrir tilstuðlan Zontaklúbbsins á Akureyri en Anna S. Snorradóttir félagi í klúbbnum spurði í grein í Mbl. 10. júlí 1992. “Hvar er styttan af Nonna?” Vitað var að á sínum tíma hafði verið búið um listaverkið til fluttnings og voru getgátur um að það hefði eyðilagst í eldsvoða sem varð í vöruskemmu Eimskipafélagsins snemma á sjöunda áratugnum. Eftir talsverða eftirgrennslan Önnu fannst stytta Nínu Sæmundsson af Nonna  á hlöðulofti Korpúlfsstaða í október 1992. Styttan var þá í eigu Menningarsjóðs og ákvað stjórn sjóðsins að styttan færi norður á Akureyri og í lok árs 1993 gaf stjórn Menningarsjóðs í samráði við menntamálaráðherra Zontaklúbbi Akureyrar styttuna. Styttan var þá í vörslu Reykjavíkurborgar sem bjó um hana til flutnings, en til stóð að steypa hana í varanlegt efni.

Slík framkvæmd er kostnaðarsöm og tókst Zontakonum að afla styrkja til verksins, m.a. í Þýskalandi þar sem Nonni var mjög þekktur. Samskip tók að sér að flytja styttuna utan og til baka. Í September 1994  lagði svo höggmynd Nínu Sæmundsson af Nonna loksins af stað yfir hafið til Kölnar í Þýskalandi þar sem gerð var bronsafsteypa af verkinu.

Bronsmyndin af Jóni Sveinssyni, Nonna, var afhjúpuð við hátíðlega athöfn á Akureyri í ágúst 1995, tæpum 37 árum eftir að Nína Sæmundsson lauk verkinu.

En þar með lauk ekki sögu styttunnar af Jóni Sveinssyni eftir Nínu Sæmundsson því gifsmyndin sem bronsmyndin var gerð eftir kom einnig til Akureyrar og var lengs af í geymslu hjá Norðurorku eða þar til í október síðastliðnum að gifsmyndin var flutt suður af Norðurorku og komið fyrir í geymslu Listasafns Íslands. Gifsmynd Nínu Sæmundssona af Nonna hefur ferðast víða og verið geymd við mjög misjafnar aðstæður og hefur því látið á sjá á þeim 57 árum sem eru liðin síðan Nína Sæmundsson lauk verkinu.  Verkið þarfnast því umfangsmikillar viðgerðar til að verða sýningarhæft en gifsmyndin hefur ekki verið aðgengileg almenningi síðan hún var í lestrarsal Borgarbókasafnsins í Reykjavík um 1980.

Zontaklúbburinn á Akureyri hefur nú ákveðið að gefa Listasafni Íslands gifsmynd Nínu Sæmundsson og er það vel við hæfi þar sem Nína sjálf arfleiddi safnið að fjölda verka sinna sem m.a. má sjá á sýningunni Nína Sæmundsson, Listin á hvörfum í Listasafni Íslands og á og á vefsýningu  á málverkum Nínu Sæmundsson á Sarpur.is.