• Kynningarmynd Solastalgia

Solastalgia

Viðbættur sýndarveruleiki

  • 4.7.2020 - 10.1.2021, Listasafn Íslands

Solastalgia er innsetning í gagnauknum veruleika (AR - augmented reality) eftir alþjóðlegt teymi virtra listamanna úr ýmsum greinum þar sem samtímalist og einstakri hljóðhönnun er teflt saman til að skapa upplifun sem höfðar til allra skilningarvita.

Gestir úr óþekktri framtíð ganga inn í 250 fermetra innsetningu með AR-höfuðbúnað og kanna jörðina eftir endalok mannkyns, þar sem dularfullt stafrænt ský, sem knúið er áfram af undarlegri vél, er það eina sem eftir stendur. Meðan gestirnir ganga um plánetuna þar sem mosi, brak, rústir og steingervingar hafa numið land birtast vofur mannfólks allt í kring og tjá hin gleðiríku, djúpstæðu og grimmu augnablik tilverunnar um alla eilífð.

Í dag trúum við heitar en nokkru sinni fyrr á framfarir sem verða í krafti tækniþróunar. Við erum tengd við netið hverja stund en okkar björtu, stafrænu framtíð stendur ógn af þeim fordæmalausu hamförum sem vofa yfir mannkyninu. Óeðlilegar sveiflur í loftslagi og hnignun lífvera kalla á hugleiðingu um það hversu viðkvæm siðmenning okkar er í raun og veru. Solastalgia endurspeglar þessa spennu á milli frelsunarmáttar tækninnar og vísindalegra útreikninga um válega framtíð.

Innsetningin varir í rúman hálftíma og geta 10 manns skoðað hana í einu. Aldurstakmark 13 ára.