Skólahópar

Nemendum á öllum skólastigum er boðið í heimsókn í Listasafn Íslands.

Nemendum á öllum skólastigum er boðið í heimsókn í Listasafn Íslands. Í hverri heimsókn eru sýningar safnsins skoðaðar og nemendur hvattir til að taka þátt í umræðum um myndlist, listamenn, efnisnotkun listamanna og hlutverk Listasafns Íslands.

Markmið heimsóknar

  • Að nemendur kynnist Listasafni Íslands.
  • Að nemendur kynnist hugtökum á borð við: Myndlist, þjóðlistasafn, sýning og safneign.
  • Að nemendur kynnist fjölbreytileika myndlistar í breytilegu formi eftir þeim sýningum sem eru í safninu hverju sinni.

Heimsóknin

Tekið er á móti hópum í anddyri Listasafns Íslands, Fríkirkjuvegi 7 í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15 eða í Húsi Ásgríms Jónssonar á Bergstaðastæti 74. Safnkennari býður nemendur velkomna og fer yfir sögu og hlutverk Listasafns Íslands í stuttu máli. Eftir kynningu á safninu eru sýningar safnsins skoðaðar. Safnkennari hvetur nemendur til að spyrja spurninga og velta ýmsum hugtökum fyrir sér á meðan verkin eru skoðuð. Farið er yfir myndbyggingu, verkferla, listamenn og mismunandi tímabil í listasögunni.

Við tökum vel á móti nemendum á öllum aldri, með eða án leiðsagnar. Á hverju ári eru nokkrar sýningar í safninu. Safnkennarar okkar leitast við að miðla sýningunum til nemenda með tilliti til Aðalnámskrá grunnskólanna.

„Listupplifun opnar farveg til að skoða og meta eigin gildi og viðhorf, á beinan eða óbeinan hátt, út frá margvíslegum leiðum og miðlum. Í listum geta nemendur rýnt í gildi samfélagsins á ólíkum tímum og mismunandi menningarsvæðum og einnig persónuleg gildi, s.s. gagnvart einstaklingum, fjölskyldu, samfélaginu, vinnu og leik, náttúru og umhverfi, fegurð, ljótleika, ofbeldi og ást“ (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 143).

Hver heimsókn tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en sem nemur einum bekk, eða um 25 nemendur.

Verið velkomin í heimsókn.

Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.is.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17