Vetrarskál
1993
Erla Þórarinsdóttir 1955-
Erla Þórarinsdóttir nam við Konstfack í Stokkhólmi á árunum 1976–1981, þar af dvaldi hún í eina önn í Amsterdam þar sem hún var gestanemandi Gerrit Rietveld-akademíunnar. Hún er yfirleitt talin vera undir áhrifum nýlistarinnar en hún var ein af þeim sem tóku þátt í endurlífgun málverksins snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Í upphafi var það hin ítalska trans-avantgarde-stefna sem hafði hvað mest áhrif á listsköpun Erlu. Erla hefur meðal annars sótt efnivið verka sinna í trúarbrögð heimsins og sameiginlegt minni mannkyns, en hún hefur einnig rannsakað hinn innri hugarheim í tengslum við menningarbundnar mýtur og tákn. Listakonan hefur ekki einskorðað sig við strigann því hún hefur einnig fengist við gjörninga og innsetningar, þrívíða módelgerð og skúlptúra, ljósmyndir og bókverk.