Berangur

Georg Guðni

30.1.2021 — 25.4.2021

Listasafnið

Listasafn Íslands efnir til sýningar á verkum Georgs Guðna (1961 – 2011). Á sýningunni má sjá valin landslagsmálverk listamannsins frá síðustu starfsárum hans.

Salur

1

30.1.2021 25.4.2021

Sýningarstjóri

Einar Garibaldi Eiríksson

Markaðs- og kynningarmál

Guðrún Jóna Halldórsdóttir

Fræðslu- og viðburðardagskrá

Ragnheiður Vignisdóttir

Forvarsla

Ólafur Ingi Jónsson

Vorið 2004 keypti Georg Guðni sér landspildu þar sem hann átti síðar eftir að reisa sér heimili og vinnustofu. Landspildunni var gefið nafnið Berangur og að vissu leyti má líta á hana sem hans síðustu landslagsmynd. Nafngiftin var vel til fundin, því þar svipar öllu náttúrufari til þeirra staðhátta sem okkur eru svo kunn af verkum hans.

Eftir á að hyggja vaknar sú áleitna spurning hvort það hafi verið Georg Guðni sem valdi sér þessa landspildu sem sitt annað heimili eða hvort hugsanlega hafi það verið landspildan sem valdi innri heim listamannsins sem umbúnað tilveru sinnar. Það var á þessu kjörlendi sem Georg Guðni vann að verkum sínum síðustu ár ævi sinnar.

Georg Guðni

Vera Georgs Guðna á Berangri átti eftir að hafa afgerandi áhrif á þróun hinstu verka hans. Öll bera þau með sér sterkt svipmót þess hrjóstruga eyðilands er einkennir náttúru landsvæðisins í kringum Berangur. Sem fyrr byggja þau á næmu skynbragði og upplifunum Georgs Guðna gagnvart umhverfi sínu. Jafnt frammi fyrir hraunkarlalegum og veðurbörðum harðbalanum, sem stríðum náttúruöflunum allt um kring.

Í verkum sínum fangaði Georg Guðni þennan frumkraft með einkar fínlegum og grípandi hætti. Frammi fyrir þeim er líkt og markalínur andstæðra afla tilverunnar máist út með einu pensilstriki. En undir lágstemmdu yfirbragði síðustu verka hans tók að bera á óþreyjufullum kenndum. Fram komu fyrirboðar óvæntra breytinga er gáruðu yfirborðið. Það var sem eitthvað lægi í loftinu og hæglát veðrabrigðin urðu nú smám saman ágengari.

Á Berangri var líkt og stöðugt drægi saman með listamanninum og landspildunni sem hafði útnefnt hann. Vinnudagarnir urðu sífellt lengri og vart mátti á milli sjá hvort kæmi á undan landið eða myndin af því. Á lofti voru feiknstafir er boðuðu breytingar á lífi hans og list sem ekki varð séð fyrir endann á. En það var einmitt hér á berangrinum sem hin ógnvekjandi draumsýn Georgs Guðna um samruna sinn og náttúrunnar fullkomnaðist.

Hluti verkanna á sýningunni var unnin á Berangri á árunum 2005 - 2011 og sum þeirra hafa ekki áður komið fyrir almenningssjónir. 

Georg Guðni fæddist í Reykjavík árið 1961. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1980 – 1985 og framhaldsnám við Jan Van Eyck Academie í Maastricht í Hollandi 1985 – 1987. Allt frá fyrstu einkasýningu Georgs Guðna í Nýlistasafninu árið 1985 vöktu verk hans eftirtekt íslenskra sem erlendra listunnenda. Á gæfuríkum ferli voru verk hans sýnd víða um lönd og honum hlotnuðust ýmiss konar viðurkenningar fyrir framlag sitt til alþjóðlegrar myndlistar.

Rafræn útgáfa, unnin út frá Málþingi í tengslum við sýninguna.

Verk Georgs Guðna er að finna í öllum helstu listasöfnum hérlendis og árið 2003 efndi Listasafn Íslands til yfirlitssýningar á verkum hans. Georg Guðni varð bráðkvaddur á Berangri árið 2011 einungis 50 ára að aldri.

LÍ 3841, Skarðatungl, Ásgerður Búadóttir, Myndvefnaður, Textíllist,

12.9.2020 — 24.1.2021

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17