Einkasafnið

Lifandi skráning og sýning á völdum verkum úr safni Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar

4.3.2023 — 24.9.2023

Listasafnið

Í upphafi árs 2022 var listaverkasafn hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar, sem kenndur var við Síld og fisk, afhent Listasafni Íslands til framtíðarvörslu. Safnið, sem samanstendur meðal annars af málverkum, teikningum, grafíkverkum, höggmyndum og lágmyndum, er með stærstu einkasöfnum hér á landi og telur um 1400 verk eftir marga af helstu listamönnum þjóðarinnar. Þar af eru um 400 verk eftir Jóhannes S. Kjarval sem var mikill vinur þeirra hjóna. Safnið verður skráð sem sérsafn í Listasafni Íslands og verkunum komið á stafrænt form í gagnagrunni sem er almenningi aðgengilegur, en með því eykst einnig aðgangur að verkunum í tengslum við sýningar og útgáfu. Í sal 3 hefur verið sett upp verkstæði og sýning þar sem safngestum gefst kostur á að fylgjast með vinnu skráningarteymis safnsins. Samfara því er í sal 4 haldin sýning á völdum verkum úr listaverkasafninu þar sem sjónum er beint að dýrum, stórum sem smáum, í íslenskri náttúru.

Hér má sjá verkið Rjúpur (án ártals) eftir Jóhannes S. Kjarval (1885-1972)

Salur

3

4.3.2023 24.9.2023

Sýningarstjóri

Anna Jóhannsdóttir

Verkefnastjóri sýninga

Vigdís Rún Jónsdóttir

Textar

Anna Jóhannsdóttir

Umsjón með viðburðum og fræðslu

Ragnheiður Vignisdóttir

Markaðs- og kynningarmál

Guðrún Jóna Halldórsdóttir

Umsjón tæknimála og ljósmyndun

Sigurður Gunnarsson

Forvarsla

Nathalie Jacqueminet

Steinunn Harðardóttir

Að ýmsu þarf að hyggja þegar einkasafn er fært inn í opinbert safn. Ástríðusöfnun, sem mótast af áhugasviði, viðhorfum og aðstæðum einstaklinga, lýtur öðrum lögmálum og gildismati en innkaup og söfnun í opinberum listasöfnum. Safn Ingibjargar og Þorvaldar skartar mörgum perlum íslenskrar listasögu eftir drjúgan hluta þeirra myndlistarmanna sem störfuðu á fyrstu áratugum síðustu aldar sem og yngri listamenn af kynslóðunum sem voru samtíða þeim hjónum. Eins og sýningin endurspeglar, er um fjölbreytt safn margra úrvalsverka að ræða en þar er einnig að finna verk eftir listamenn sem ekki eru í hópi þeirra sem þekktastir hafa orðið; verk sem sjást ekki oft og hafa ekki komist í eigu opinberra safna. Auk þess eru sýnd dæmi um verk og muni sem teljast ekki til listaverka en eru engu að síður þáttur í söfnunarástríðunni, eins og grísastytturnar sem svínabóndinn Þorvaldur safnaði um langt skeið.

Hér gefur að líta verk úr safninu, Uppstilling með eplum og vasa, 1924. Höfundur þess er Þórarinn B. Þorláksson.

Ingibjörg og Þorvaldur vildu að sem flestir gætu notið listaverkanna – á heimili þeirra jafnt sem vinnustöðum á þeirra vegum, en þar ber hæst listaverkin á Hótel Holti þar sem sameinaðist áhugi hjónanna á hótelrekstri og myndlist. Á kaffistofu safnsins má hlýða á viðtal við Geirlaugu dóttur þeirra þar sem hún segir frá listaverkunum á jarðhæð hótelsins en þau eru glæsilegur þverskurður íslenskrar nútímalistar frá fyrri hluta 20. aldar og hafa glatt listunnendur í meira en hálfa öld. Má segja að þar hafi löngum skarast einkasafnið og hið „opinbera“ listasafn, og í því býr jafnframt sá andi samfélagskenndar og hugsjónar sem einkenndi kynslóðir stórhuga athafnaskálda, eins og þau hafa verið nefnd, er settu mark sitt á íslenskt þjóðfélag á miklum umbyltingartímum fyrir og um miðbik síðustu aldar.

Vorið (Ófullgerða symfónían) var málað í kringum 1935. Jóhannes S. Kjarval (1885-1972) á nokkur verk í einkasafninu.

Þorvaldur var með umsvifamestu athafnamönnum þjóðarinnar og frumkvöðull á sviði matvælaiðnaðar, og má þar nefna niðursuðu sjávarfangs. Í safni þeirra hjóna er talsvert af listaverkum sem tengjast sjávarútvegi og sjómennsku, hafinu, fiskverkun og hafnarlífi. Þar á meðal eru verk eftir Ásmund Sveinsson, Eirík Smith, Gunnlaug Blöndal, Jóhannes S. Kjarval og Kristínu Jónsdóttur, auk nokkurra verka eftir færeysku listamennina Ingálv av Reyni og Mikines. Mörg verkanna bera þannig vitni um áhuga, jafnt listamannanna sem safnaranna, á störfum fólks í þessari atvinnugrein og daglegu umhverfi þess. Verk þessi eru til sýnis í sal 3 þar sem vinna við skrásetningu safnsins fer fram í eystri enda salarins.

Sýningunni í sal 3 var framlengt til 24. september 2023.

Á lýðveldisárinu 1944 stofnaði Þorvaldur verslunina Síld og fisk við Bergstaðastræti þar sem þau Ingibjörg reistu síðar Hótel Holt.

Þorvaldur var brautryðjandi nútímalegrar svínaræktunar hér á landi en árið 1954 hóf hann rekstur eins stærsta og fullkomnasta svínabús landsins á Minni-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Í safninu bregður svínum fyrir í ýmsum myndum ásamt hestum, kúm og hænum í verkum sem skírskota til sveitasamfélagsins þar sem húsdýrin leika stórt hlutverk í sambýli manns og náttúru. Meðal höfunda slíkra verka eru Ásgrímur Jónsson, Halldór Pétursson, Jón Stefánsson, Louisa Matthíasdóttir, Ragnar Kjartansson (eldri), Sigurlaug Jónasdóttir og Sveinn Þórarinsson. Einnig eru sýnd dæmi um sveitalífsmyndir eftir erlenda myndhöfunda, verk sem hjónin eignuðust á ferðalögum sínum erlendis. Fuglum bregður fyrir í verkum eftir Höskuld Björnsson, Ísleif Konráðsson og Þórarin B. Þorláksson, svo dæmi séu nefnd, að ógleymdum fuglum Kjarvals – en í verkum hans hafa dýrin gjarnan skáldlega merkingu. Fiskar og villt spendýr eins og hvalir, selir og hreindýr eru viðfangsefni í verkum eftir Finn Jónsson, Guðmund frá Miðdal, Jón Engilberts og í mögnuðu verki Gunnlaugs Scheving af þorski á mörkum menningar og villtrar náttúru.

Í safni Ingibjargar og Þorvaldar er að finna nokkurn fjölda verka þar sem dýr eru áberandi viðfangsefni.

Í verkum á sýningunni má sjá táknrænar birtingarmyndir samspils mannverunnar og dýraríkisins. Í listum og menningu hefur að undanförnu gætt vaxandi áhuga á að gaumgæfa samband mannfólks og dýra, meðal annars í ljósi þess að maðurinn er dýrategund og í tengslum við endurmat á stöðu hans í náttúrunni á tímum loftslagsbreytinga í kjölfar iðnvæðingar og hnattrænnar hlýnunar. Í slíku endurmati hefur gjarnan verið lögð áhersla á sjónarhorn náttúrunnar, þar á meðal dýra. Málverk, sem í fyrstu virðist fyrst og fremst vera landslagsmynd er sýnir þekktan stað á landinu, þar sem sjást fáein dýr, má einnig túlka sem lýsingu á umhverfi og heimkynnum dýra. Og þá vakna vangaveltur um það hvernig heimkynnum þeirra hafi reitt af. Að sama skapi geta verk, sem bera vitni sterkum tengslum manns og náttúru hér á landi, minnt á það hvernig slík tengsl hafa rofnað. Þannig getur listræn framsetning á dýrum veitt innsýn í þá menningarbundnu þætti sem móta skilning á dýrum.

Löng hefð er fyrir myndrænni framsetningu dýra í listasögunni.

Listamenn

Ásgrímur Jónsson, Ásmundur Sveinsson, C.M. Tegner, E. Helgason, Eggert Guðmundsson, Einar G. Baldvinsson, Eiríkur Smith, Finnur Jónsson, Gísli Jónsson, Guðmundur Karl Ásbjörnsson, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Gunnlaugur Blöndal, Gunnlaugur Scheving, Halldór Pétursson, Hans Lynge, Höskuldur Björnsson, Ingálvur av Reyni, Jóhann Briem, Jóhannes S. Kjarval, Jóhannes Geir Jónsson, Jón Gunnar Árnason, Jón Benediktsson, Jón Engilberts, Jón Gunnarsson, Jón Stefánsson, Kjartan Guðjónsson, Kristín Jónsdóttir, Louisa Matthíasdóttir, Magnús Jónsson, Muggur – Guðmundur Thorsteinsson, Nína Tryggvadóttir, Ragnar Kjartansson (eldri), Sámal Joensen-Mikines, Sigurlaug Jónasdóttir, Sveinn Þórarinsson, Tryggvi Ólafsson, Veturliði Gunnarsson, Walter Bengtsson, Þorvaldur Skúlason, Þórarinn B. Þorláksson, Örlygur Sigurðsson og ýmsir óþekktir höfundar

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17