Hljóðverk og innsetning á göngum safnbyggingar

Tumi Magnússon

1.1.2015 — 8.1.2017

Listasafnið
Ljósmynd sýnir stigagang Listasafn Íslands þar sem sett hafa verið upp stórar ljósmyndir af eyra og nefi

Hljóðverk: Lækur – hægt og hratt  
Innsetning á göngum safnbyggingar: Fjölskylduportrett

Tumi Magnússon (f. 1957) er fæddur á Íslandi og býr í Kaupmannahöfn. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og AKI - Academie voor Beeldende Kunst í Hollandi. Hann hefur haldið yfir 40 einkasýningar og tekið þátt í yfir 100 einka- og samsýningun í öllum helstu listasöfnum og listrýmum á Íslandi, svo og í Evrópu, Bandaríkjunum, Mexíkó, Uruguay og Nýja Sjálandi. Tumi var prófessor við Listaháskóla Íslands frá 1999 til 2005 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn frá 2005 til 2011. 

Á löngum ferli hefur Tumi unnið með flestalla miðla myndlistarinnar. Framanaf kannaði hann þanþol málverksins og þróuðust verk hans frá málverkinu yfir í ljósmyndaverk, vídeó- og hljóðinnsetningar. Líkt og með smásjá þess sem þekkir tengsl hins ofursmáa við stóru myndina skoðar hann umhverfi sitt af nákvæmni og notar m.a. til þess breytingamöguleika myndvinnsluforrita og kannar þannig það sem mannsaugað sér ekki ella.

Verk hans, sem unnin eru á vínylfólíu og fest á veggi, eiga í samtali við arkitektúrinn en ekki síður við impressjónismann, þar sem aðeins má skynja fígúratíft myndefni stórra málverka þegar líkamleg fjarlægð áhorfandans frá fletinum hefur náð nokkrum metrum. Líkamleg afstaða og sjónarhorn liggja til grundvallar verki Tuma Fjölskylduportrett frá árinu 2000 en í verkinu má sjá ljósmyndir af nefi listamannsins, munni eiginkonu hans, eyra sonar þeirra og auga dóttur þeirra, sem búið er að stækka upp og teygja. Stærðir ljósmyndanna taka mið af arkitektúr á hverjum sýningarstað, og svo á einnig við um verkið í safnbyggingu Listasafns Íslands.
Í nýju hljóðverki Tuma, Lækur – hægt og hratt lykjast lækjarniður um ganga safnbyggingarinnar og er hljóð þeirra teygt og þjappað á víxl, svo hrynjandi er breytileg.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)