Járn, hör, kol og kalk: Ný verk eftir Þóru Sigurðardóttur

Þóra Sigurðardóttir

13.4.2024 — 15.9.2024

Listasafnið

Í miðpunkti innsetningarinnar eru nokkrir járnskúlptúrar með hillum og sýningarkössum sem innihalda bæði fundna og manngerða hluti. Þetta safn jarðneskra hluta hefur margslungið yfirborð sem kallar á snertingu; þarna eru uppþornaðar leifar eftir matargerð og lífræn efni á borð við plöntuleifar, pappír, bein og dún, en einnig postulín, járn, kopar og steinn. Í þessu persónulega safni sést hvaða áhrif umbreyting hversdagslegra hluta hefur á næmi listakonunnar og hvernig hún bregst við þeim í listsköpun sinni.

Himnur er einnar rásar vídeóupptaka af þunnum magavefjum sauðkindarinnar sem safnað er saman eftir sláturgerð. Himnurnar hringsnúast í eldhúsvaski fullum af vatni. Matargerðarhefðir sem þessi finnast í mörgum menningarheimum og spretta fyrst og fremst af nauðsyn og þeirri ákvörðun að láta ekkert fara til spillis. Vinna með slátur er á vissan hátt skúlptúrgerð, þar sem ný lífræn form verða til úr öðrum slíkum.

Þóra hefur haft áhuga á alls kyns strúktúrum síðan í æsku, þar á meðal fínlegum teikningum byggingaruppdrátta, tímatöflum í almanökum og dagatölum, og línum til að skrifa á og nótnastrengjum fyrir tónsmíðar. Þegar hún var ung stúlka teiknaði hún grófa arkitektateikningu af æskuheimili sínu og bætti inn á hana línum sem sýndu hreyfingar fjölskyldumeðlimanna út og inn og á milli herbergja. Ein af elstu minningum hennar er um röntgenmyndir af mannslíkamanum, sem faðir hennar, röntgenlæknir á Akureyri, tók. Þóra hreifst af tengingunum á milli beinagrindar mannsins og holdsins og kerfa líkamans, af opnu sambandi mannslíkamans við umhverfi sitt, og þeirri hugmynd að allt tengist í gegnum efnið.

Meðal verka á sýningunni eru kopar- og álætingar sem unnar voru í listamannadvöl í Berlín og Feneyjum og á prentverkstæði félagsins Íslensk Grafík í Hafnarhúsinu. Listamaðurinn vinnur með einn prentlit og byggir með honum upp áhugavert jafnvægi með því að draga fram óendanlega fín blæbrigði í línum og litatónum. Röð málverka, sem unnin eru með viðarkolum, grafíti, bleki, blýanti og krít á límgrunnaðan hör, sýnir aðra hlið á athugunum listamannsins á samspili þeirra takmarkana sem fylgja neti lóðréttra og láréttra lína og tilviljanakenndrar uppröðunar.

 

 


Járn, hör, kol og kalk: Ný verk eftir Þóru Sigurðardóttur

Salur

4

13.4.2024 15.9.2024

Listamaður

Þóra Sigurðardóttir

Texti

Pari Stave

Verkefnastjóri sýningar

Vigdís Rún Jónsdóttir

Sýningarhönnun

Studio Bua

Umsjón tæknimála

Sigurður Gunnarsson

Uppsetning

Magnús Helgason

Gylfi Sigurðsson

Indriði Ingólfsson

Andri Björgvinsson

Ísleifur Kristinsson

13.4.2024 — 15.9.2024

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17