Kjarni

Sigrún Hrólfsdóttir

4.12.2014 — 31.1.2015

Listasafnið

Í verkum sínum skoðar Sigrún Hrólfsdóttir hið óefnislega svæði tilfinninganna og samspil hins innri heims hins persónulega við hinn ytri heim hugmynda og tákna. Í nýjasta verki sínu er virkni tilfinninga efnisgerð með einföldum hætti. Hendur draga mislita taubúta úr höfði manneskju, og á andliti hennar birtast litir og mismunandi samsetningar. Verkið Kjarni er barnsleg og einlæg tilbeiðsla og upphafning á ríki tilfinninganna og dregur innblástur meðal annars frá 100 ára gömlum málverkum Gabriele Munther og annarra þýskra expressjónista, sem og myndefni úr heilaskanna (fMRI eða Functional Magnetic Resonance Imaging).

Sigrún Hrólfsdóttir vinnur í ýmsa miðla. Síðasta einkasýning hennar nefndist Hin ókomnu (2013) og var sett upp í Kunstschlager í Reykjavík. Þar voru sýnd málverk og innsetning / ljósaverk. Sigrún er ein af stofnendum Gjörningaklúbbsins. Verk hans eru af margvíslegum toga og unnin í alla miðla en eiga það sameiginlegt að eiga rætur í gjörningalist. Verk þeirra hafa verið sýnd um allan heim og eru í eigu helstu safna á Íslandi og fjölmargra erlendra opinberra- og einkasafna. 

Vídeósýningarnar á kaffistofunni eru samstarfsverkefni Listasafns Íslands og 700IS Hreindýralands.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)