Kvartett

Chantal Joffe, Gauthier Hubert, Jockum Nordström og Tumi Magnússon

15.1.2016 — 1.5.2016

Listasafnið
Ljósmynd sýnir stigagang Listasafn Íslands þar sem sett hafa verið upp stórar ljósmyndir af eyra og nefi

Listasafn Íslands hefur sýningadagskrá sína á nýju ári með sýningu fjögurra samtímalistamanna, þeirra Gauthiers Hubert (1967), Chantal Joffe (1969), Jockums Nordström (1963) og Tuma Magnússonar (1957). Öll vinna þau með sjálfan manninn í brennidepli. Framsetning verka þeirra snýst um listmiðilinn og sögu hans að fornu og nýju og þau ganga út frá ákveðnum sögulegum forsendum en með afar ólíkum hætti.

Gauthier Hubert tekur hugmyndlæga afstöðu til málverksins og spretta verk hans af sagnfræðilegum atvikum sem bregða skýru ljósi á starf og hugarheim listamannsins í fortíð og nútíð. (Viðtal við Gauthier Hubert)

Chantal Joffe gengur gjarnan út frá sjálfri sér, sínu nánasta umhverfi. Verk hennar eru í senn nærgætin, innileg og nærgöngul. (Viðtal við Chantal Joffe þar sem hún ræðir um verk sín)

Jockum Nordström teiknar, klippir og límir upp barnslegar myndir af samfélagi eins og það birtist okkur gjarnan í sögulegum sápuóperum um húsbændur og hjú. Undir liggur þó sori og siðleysi. (Viðtal við Jockum Norrdström)

Teygðar og afmyndaðar myndir Tuma Magnússonar af líkamspörtum og hauskúpum eru nær beinar tilvísanir í myndmál sem hrekkjóttir meistarar á 16. öld beittu gegn hugmyndaþurrð samtíðarinnar. (Viðtal við Tuma Magnússon)

Nánar um sýninguna

KVARTETT er sýning fjögurra skyldra, en um leið ólíkra listamanna, Gauthier Hubert (f. 1967), Chantal Joffe (f. 1969), Jockum Nordström (f. 1963) og Tumi Magnússon (f. 1957). Öll eiga verk þeirra sammerkt að vera norðurevrópsk að yfirbragði og figuratív með víðtækum tilvísunum í listasöguna. Til dæmis leita Hubert og Tumi báðir aftur til tíma síðendurreisnarinnar og maníerismans að viðfangsefni sem bregður ljósi á listrænar vangaveltur í samtíðinni. Ef ekki væri búið að skrumskæla hugtakið maníerismi með óábyrgum hætti mætti hæglega kalla báða listamenn nýmaníeríska. Sú merkilega stefna staðsett milli háendurreisnar og barokks – um það bil frá 1520 til 1600 – hlaut hvorki náð fyrir augum listamanna né listspekinga fyrr en með 20. öldinni.

Frægt er þegar Picasso málaði öndvegisverk sitt Ungfrúrnar í Avignon árið 1907, þá lá hann yfir verkinu Opnun fimmta innsiglisins eftir El Greco, einhvern áhrifamesta maníerista allra tíma, í eigu spænska málarans Ignacios Zuloaga sem var þá búsettur í París eins og Picasso. Þeir Hubert og Tumi eru sér afar meðvitaðir um sögulegt mikilvægi maníerismans sem listrænnar uppreisnar gegn altækri reglufestu endurreisnarinnar og hvernig stefnan varð vísir að nútímalegri vitund listamannsins um eðli og inntak starfs síns.

Ef listamenn áttu að finna ímyndunarafli sínu, tjáþörf og hugarflugi stað urðu þeir að brjóta upp rígskorðaðar lýsingar sínar á ytri veruleik til að koma fyrir því sem bjó innra með þeim. Var það tilviljun að El Greco skyldi eiga nær samtíðarlega samleið með Shakespeare seinni hluta ævinnar eða hitt að leikritaskáldið skuli hafa nefnt maníeristan Giulio Romano, eftirlætisnemanda Rafaels einan á nafn af öllum þeim aragrúa listamanna sem gert höfðu garðinn frægan eftir miðaldir? Spurningunni er látið ósvarað en eftir stendur að í Listasafni Íslands má finna öndvegisverk eftir báða, Giulio Romano og Picasso.

Þótt Hubert og Tumi taki báðir mið af þýska maníeristanum Hans Holbein yngri, hirðmálara Hinriks VIII Englandskonungs , nálgast þeir viðfangsefni sitt með afar ólíkum hætti. Verk hins fyrrnefnda eru þeir eins og langur og stígandi andante úr strengjakvartett með skískotun og tilvísunum í norðurevrópska hefð, allt frá ofurnæmri krítarteikningu Holbein af Önnu Meyer frá Basel, frá öndverðri sextándu öld til þeirrar nítjándu, þegar van Gogh sat enn á skólabekk í Listakademíunni í Antwerpen. Verk Tuma minna hins vegar á stríðóma scherzo með óvæntum útúrdúrum enda er leiðarstefið í gáskafullum leik hans á sýningunni undurfurðuleg hauskúpa – teygð eins og tyggjó – fengin úr hinu þekkta málverki Holbein af tveim frönskum Ambassadorum í Þjóðlistasafninu í Lundúnum.

Allegretto-kafli Kvartettsins kemur greinilega úr smiðju ensku listakonunnar Chantal Joffe en meginefni verka hennar, litríkar sjálfsmyndir, dóttirin Esme, vinkonur og frænkur, minna óneitanlega á efnistök El Greco, ekki þann sem málaði píslarvottana í himnaríki heldur hinn sem náði svipbrigðum Konunnar sveipaða loðfeldinum og sló með því Cézanne svo kaldan að hann fann sig knúinn til að gera eftirmynd af verkinu. Það hlýtur að teljast merkileg tilviljun að Joffe skyldi setjast á skólabekk í Listaskólanum í Glasgow, sömu borg og hýsir áðurnefnt portrett El Greco. 

Það er öðru fremur augnsvipurinn í málverkum Joffe sem virkar sem allegretto og rímar við líflegan ryþman í lokakafla Kvartettsins, leikinn af Jockum Nordström með taktfastri vivace hrynjandi. Reyndar eru klippiverk hans þannig löguð að þau minna á nótnablöð með misþéttum nótnaklösum. Eitt og sér færir það þau nær tónmálsverkum Paul Klee, sem hann sem fiðluleikari og kammersveitarmeðlimur dró upp á aflangan grunn eins og nótnaskrift.

Rétt eins og augnaráðið í myndum Gauthier Hubert og Chantal Joffe er það áhorfið og það sjónarhorn sem fylgir augnagotunum sem ákvarðar áherslurnar í myndum Jockum Nordström. Kvartett talar því beint og umbúðalaust til áhorfandans þó svo að staðsetning hans ráði miklu um skilning hans á því sem fyrir augu ber. Rétt eins og sannast á holbeinóttri sporöskjunni sem flýgur óræð framan við sendiherrana í hinni áleitnu portrettmynd Holbein botnar áhorfandinn, og aðeins hann einn það sem mætir sjónum hans. Þess vegna sjá menn aldrei hið sama þótt þeir einblíni í rétta átt, þá átt sem þeir telja hina einu og sönnu út frá sínu eigin sjónarmiði.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)