Listasafn Íslands 1884-2014

Valin verk úr safneign

7.11.2014 — 5.2.2015

Listasafnið

Listasafn Íslands varð 130 ára 16. október síðastliðinn, en safnið var stofnað í Kaupmannahöfn árið 1884 af hugsjónamanninum Birni Bjarnarsyni (1853–1918), sem þá vann hjá fógetaembætti konungs en varð síðar sýslumaður og þingmaður Dalamanna. Á fyrstu 22 árum hinnar nýju stofnunar tókst Birni og aðstoðarmönnum hans að safna 74 verkum eftir mæta listmálara frá Norðurlöndunum, Englandi, Þýskalandi og Austurríki. Flest voru þessi verk gjafir listamannanna sjálfra.

Fyrsta íslenska verk sitt, Útlagar, eftir Einar Jónsson eignaðist Listasafn Íslands árið 1904. Fyrsta íslenska málverkið, Áning, eftir Þórarin B. Þorláksson kom ekki til safnsins fyrr en 1911, nær 30 árum eftir stofnun þess. Nú, 130 árum síðar, eru rúmlega 11 þúsund verk í eigu Listasafns Íslands. Þar af eru um 11 hundruð verk eftir erlenda listamenn, eða tíundi hluti safneignarinnar. Safnið á verk eftir tæplega 800 listamenn og er rétt tæpur helmingur þeirra Íslendingar. Meirihluti safneignarinnar, eða um 75%, er gjafir til safnsins. Munar þar mestu um dánargjafir einstakra listamanna. Árlega eru keypt verk til safnsins og er upphæðin ákveðin á fjárlögum. Árið 2014 er 25,2 milljónum varið til innkaupa á listaverkum.

Til að vekja athygli á þessari löngu sögu listaverkasöfnunar þjóðinni til handa verður senn gefin út bók um safneignina með 130 listaverkum sem spanna þessa merku safneign og gefur til kynna þá fjölbreytni í efniviði og aðferðum, sem einkennir íslenska list í gegnum tíðina. Af þessum 130 verkum hafa verið valin til sýningar um 50 verk, sem endurspegla 130 ára sögu Listasafns Íslands.

7.11.2014 — 8.2.2015

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17