Listin í smiðju Héðins

1.10.2022 — 1.10.2022

Listamenn sem eiga verk á sýningunni

Ásgrímur Jónsson, Brynjólfur Þórðarson, Eggert M. Laxdal, Eyjólfur Eyfells, Finnur Jónsson, Greta Björnsson, Guðmundur frá Miðdal, Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, Gunnar Gunnarsson, Gunnlaugur Scheving, Höskuldur Björnsson, Jóhann Briem, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Jón Þorleifsson, Karen Agnete Þórarinsson, Snorri Arinbjarnar, Svavar Guðnason, Sveinn Þórarinsson, Þorvaldur Skúlason, Þórarinn B. Þorláksson

Listin í smiðju Héðins er samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Héðins í tilefni af hundrað ára afmæli fyrirtækisins. Sýnd eru verk úr merkri gjöf fjölskyldu Markúsar Ívarssonar, sem stofnaði Héðin ásamt Bjarna Þorsteinssyni árið 1922. 

Markús var fæddur 1884. Hann var járnsmiður að mennt og ástríðufullur safnari verka eftir listamenn samtíma síns. Studdi hann þannig meðvitað við ýmist listafólk sem bjó við kröpp kjör við upphaf ferils síns en átti síðar eftir að slá í gegn. 

Markús féll frá árið 1943, aðeins 59 ára gamall. Hann skildi eftir sig gríðarlegt safn, um 200 verk, olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar og höggmyndir. Árið 1951 færðu ekkja Markúsar, Kristín Andrésdóttir, og dætur þeirra Listaverkasafni ríkisins 56 verk úr þessu stóra safni. 

Tilkynnt var um gjöfina þann 27. ágúst, sama dag og Listasafn Íslands var formlega opnað í nýjum húsakynnum við Suðurgötu á efstu hæð byggingarinnar þar sem Þjóðminjasafnið er nú á öllum hæðum.

Og fjölskylda Markúsar lét ekki þar við sitja. Árið 1966 færði hún safninu að auki eitt verk eftir Jóhannes S. Kjarval, Sjá roðann á hnjúkunum háu, frá 1930, árið 1997 gaf hún safninu verkið Dettifoss eftir Svein Þórarinsson í tilefni af 75 ára afmæli Vélsmiðjunnar Héðins, og árið 2007 bættist frá fjölskyldunni í safneign Listasafns Íslands málverk af Markúsi Ívarssyni eftir Jón Stefánsson, málað 1934. Sýnir það Markús í bláum samfestingi, hugsi á svip með hamar og meitil í hendi.

Markús hóf  markvissa söfnun á mikilvægum tímapunkti þegar nýjar kynslóðir listamanna voru að koma fram á sjónarsviðið á fjórða áratugnum en áttu erfitt uppdráttar á kreppuárunum, og þá skipti stuðningur hans oft sköpum. 

Almennt felur safn Markúsar í sér mjög gott úrval íslenskrar myndlistar frá fyrri hluta síðustu aldar. Þar á meðal eru lykilverk ýmissa mikilvægustu listamanna þjóðarinnar.

Efnistökin og viðfangsefnin eru fjölbreytt á sýningunni Listin í smiðju Héðins. Málverkin sýna mannamyndir, fallegar sveitalífsmyndir, dramatískar myndir af öræfalandslagi, hafnar- og bæjarlífsmyndir og í sýningarborðum er úrval teikninga og vatnslitamynda eftir Mugg, Gretu Björnsson, Höskuld Björnsson og fleiri, auk þess sem sýnd er lítil perla, vatnslitaverkið Baula eftir Svavar Guðnason frá 1934.

Vegna gjafar fjölskyldu Markúsar á Listasafnið mikilvæg verk frá átakatímabili fyrir miðja síðustu öld. Má þar nefna verkið Úr slippnum eftir Snorra Arinbjarnar frá 1936 sem fangar vel þrúgandi andrúmsloft kreppuáranna og endurspeglar jafnframt nýjar áherslur og viðfangsefni ungra listamanna sem voru á þessum árum að koma heim eftir nám í öðrum löndum. Af þessu sést vel hvernig einkasafn eins og þetta getur haft áhrif á mótun íslenskrar listasögu.

1.10.2022 1.10.2022

Sýningarteymi

Anna Jóhannsdóttir

Nathalie Jacqueminet

Sýningarhönnuður

Axel Hallkell Jóhannesson

Markaðs- og kynningarmál

Jón Kaldal

Guðrún Jóna Halldórsdóttir

Fræðslustjóri

Ragnheiður Vignisdóttir

Tónlist

Tríó Hauks Gröndal

Ávarp

Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands

Halldór Lárusson, stjórnarformaður Héðins

Í samvinnu með

Jón Þorleifsson 1891-1961

Skip í Reykjavíkurhöfn, 1940

LÍ-913
LÍ 8052, Markús Ívarsson, Jón Stefánsson, Mannamynd

Jón Stefánsson 1881-1962

Markús Ívarsson, 1934

LÍ-8052

Sagan af því hvernig portrett Jóns af Markúsi komst til Íslands.

Fjölskylda Markúsar Ívarssonar hafði lengi vitað af portrettinu sem Jón Stefánsson málaði af vini sínum árið 1934. Verkið var í Kaupmannahöfn hjá ekkju Jóns, frú Ernu Stefánsson. Sveinn í Héðni, tengdasonur Markúsar, hafði oft farið til frú Ernu til að reyna að fá hana til að selja sér myndina, en ekki fengið. (Reyndar var talið að Markús hefði verið löngu búinn að borga fyrir myndina, en Jón tekið þær upplýsingar með sér í gröfina.)

 

Það var svo einhverju sinni þegar Ingvar Vilhjálmsson í Ísbirninum var staddur í Kaupmannahöfn með Jóni syni sínum rétt eftir 1960 að hann gerði sér ferð til ekkju Jóns Stefánssonar til að kaupa myndir. Mektarmenn höfðu þá þann sið að kaupa myndir eftir stóru nöfnin í íslenskri myndlist til að gefa hver öðrum. Ingvar flettir myndum eftir Jón, sér portrettið af Markúsi og fær frú Ernu til að selja sér það fyrir 18 þúsund krónur danskar. Jón, sonur Ingvars, tekur portrettið síðan með sér í Gullfoss og hefur í klefa sínum á siglingunni til Íslands og þegar til Íslands var komið afhenti Ingvar Sveini í Héðni nágranna sínum myndina og Sveinn borgaði uppsett verð. Myndin var svo talin í eigu afkomenda Markúsar þar til hún var gefin Listasafni Íslands árið 2007.

 

 Í bókinni Íslensk portrett á tuttugustu öld segir Aðalsteinn Ingólfsson portrettið hiklaust vera meðal öndvegisverka íslenskrar myndlistar. Hann þykist þess fullviss að Jón hefði aldrei komist upp með að mála íslenskan atvinnurekanda, jafnvel ekki fyrrverandi járnsmið, í gömlu vinnufötunum sínum og með hamar og meitil milli handanna, hefði sami atvinnurekandi ekki borið nær takmarkalausa virðingu fyrir köllun listamannsins. „Portrettið af Markúsi Ívarssyni er einstök hylling nær útdauðrar manngerðar, ungmennafélagshetjunnar með sigg í lófunum og hugann uppfullan með ættjarðarást og skáldskap.“ (Aðalsteinn Ingólfsson, Íslensk portrett á tuttugustu öld, Hafnarborg 1996 bls. 28.)

15.10.2022 — 12.2.2023

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)