Nokkur nýleg verk
Samsýning
9.9.2023 — 28.1.2024

Listasafn Íslands er þjóðlistasafn okkar Íslendinga og eitt af hlutverkum þess er að safna myndlist með það að markmiði að endurspegla sem best strauma og stefnur í íslenskri og alþjóðlegri myndlist á hverjum tíma eins og segir í lögum um safnið. Safneignin er yfirgripsmikil og fjölbreytt. Elstu verkin eru frá 16. öld og þau yngstu innan við ársgömul en kjarni safneignarinnar er íslensk myndlist frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag. Nú eru yfir 15.000 verk í listaverkasafninu og á hverju ári bætist við þann fjölda og hefur safnið tæpar 30 milljónir króna til umráða til listaverkakaupa á ári. Val verka, bæði varðandi kaup og listaverkagjafir til safnsins, er í höndum þriggja manna innkaupanefndar sem skipuð er af menningarráðherra til þriggja ára í senn. Í nefndinni situr safnstjóri, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra myndlistarmanna og einn án tilnefningar.
Á sýningunni Nokkur nýleg verk má sjá úrval verka sem keypt hafa verið af innkaupanefnd Listasafns Íslands eða safnið hefur fengið að gjöf á undanförnum fjórum árum. Það er kærkomið að varpa ljósi á þennan stóra og mikilvæga þátt í starfsemi safnsins með því að sýna nýleg verk úr safneigninni og varpa ljósi á þær áherslur sem verið er að leggja við innkaup á hverjum tíma. Sýningin endurspeglar margbreytileika framúrskarandi íslenskrar samtímalistar.
Nokkur nýleg verk hafa verið valin saman þar sem íslenskt landslag er leiðarstef í verkum listamanna ólíkra kynslóða og eru þau unnin í ýmsa miðla.
