Þetta er mjög stór tala (Commerzbau)
Hildigunnur Birgisdóttir
22.2.2025 — 7.9.2025

Þetta er mjög stór tala (Commerzbau)
Listasafn Íslands kynnir sýningu Hildigunnar Birgisdóttur, Þetta er mjög stór tala (Commerzbau), sem var framlag Íslands til tvíæringsins í Feneyjum árið 2024. Þessi hárbeitta og gáskafulla sýning samanstendur af skúlptúrum og innsetningum sem kafa ofan í hið kynlega samband okkar mannfólksins við fjöldaframleiddu hlutina sem umkringja okkur. Sýningarstjóri er Dan Byers.
Þetta er mjög stór tala (Commerzbau) er sett upp bæði í anddyri safnsins og í sal 3 en þar fyllir listakonan rýmið af verkum þar sem hún nýtir sér efnivið, varning og tungumál fjöldaframleiðslu, markaðs- og dreifingarkerfa. Hildigunnur skapar alltumlykjandi umhverfi og sækir sér innblástur í hugtakið „Merzbau“ úr smiðju þýska dada-listamannsins Kurts Schwitters. Schwitters hóf að nota hugtakið „Merz“ í listsköpun sinni eftir að hafa fundið rifrildi úr dagblaði með seinni helmingi orðsins „Commerz“. Hér kynnir Hildigunnur fyrri hluta orðsins, „Com“, aftur til sögunnar, og skapar „Commerzbau“ sem háðska skírskotun til fjöldaframleiddra hluta og úrgangs úr heimi verslunar og viðskipta.

Sýningin
Þegar komið er inn í safnið blasir við gestum verkið Approximately 7%, LED-skjár þar sem varpað er upp síbreytilegum myndum af litlum hluta auglýsingaskiltis í úthverfi Reykjavíkur.
Þar sem gengið er inn í innsetninguna í sal 3 sjá gestir Infoxication, vegg úr endurunnu gólfefni sem notað var á arkitektúr-tvíæringnum í Feneyjum árið 2023 en vegginn hefur Hildigunnur skreytt með lógóum þeirra fyrirtækja og stofnana sem gerðu íslenska skálann að veruleika. Þannig dregur hún fram í dagsljósið þau duldu viðskiptakerfi sem koma við sögu á alþjóðlegum listviðburðum. Á yfirborði innsetningarinnar eru heilmyndir, prentaðar hjá fyrirtækinu Kurz sem sérhæfir sig í heilmyndarprentunum á peningaseðla, og þannig tindrar veggurinn af rúmlega eitt hundrað lógóum fyrirtækisins.
Tveir litlir plastskúlptúrar vekja okkur til umhugsunar um hvernig við tengjumst hlutum og eigum í samskiptum við þá. Skúlptúrarnir eru smíðaðir úr stjórnborðum heimaprentara og ísskáps og þeir blikka stanslaust, ýmist í eða úr takti hvor við annan. Blikkljósunum, sem segja okkur að pappír sitji fastur eða að gleymst hafi að loka ísskápshurðinni, fylgir óvænt glamur líkt og í titrandi síma, sem hjá nútímamanneskjunni kveikir þau ósjálfráðu viðbrögð að teygja sig í símann.
Lítil plastleikföng fyrir dúkkuhús – m.a. pizza, steik og verkfæri tannlæknis – hafa verið skönnuð, stækkuð upp í fulla stærð og framleidd af þýsku fyrirtæki. Skúlptúrarnir fanga hið einkennilega slétta yfirborð og einfaldaða form leikfanganna sem eru hönnuð til þess að gefa aðeins þær lágmarksupplýsingar sem þarf til að skýra tilgang þeirra. Skúlptúrunum fylgir litaprent, skreytt með límmiða sem á er letruð mjög stór tala af skjá og lyklaborði leikfangapeningakassa verk sem ber nafn sýningarinnar, þetta er mjög stór tala. Þessi verk gefa okkur færi á að hugleiða á hve lúmskan hátt hversdagslegir hlutir eru endurskapaðir sem þroskaleikföng fyrir börn og hvernig neyslumenning er þeim innrætt frá unga aldri.
Stórar lágmyndir prýða veggi gallerísins og eru þær framleiddar af hollensku fyrirtæki samkvæmt nýjustu aðferðum í sjálfbærri framleiðslu. Tvær lágmyndanna eru búnar til úr endurunnum kaffipokum úr jútu, aðrar úr endurunnu gallaefni eða jakkafötum bankamanna. Lágmyndirnar hafa verið mótaðar í form litlu, ódýru umbúðanna sem við sjáum gjarnan utan um vörur sem við ætlum að kaupa. Verk listakonunnar endurspegla togstreituna á milli þeirrar persónulegu ánægju sem efnislegir hlutir geta veitt okkur og afleiðinga þess þegar heimurinn fyllist af slíkum hlutum.
Listamaðurinn
Hildigunnur er kunn fyrir að gefa hinu smáa gaum í listsköpun sinni og varpa gagnrýnu ljósi á hnattræn framleiðslu- og dreifingarkerfi, sem og hið undarlega lífshlaup varningsins sem þessi kerfi skapa. Í verkum sínum dregur hún athyglina að hlutum sem við sjáum rétt svo glitta í, gjarnan fjöldaframleiddum fylgifiskum neyslumenningarinnar, svo sem umbúðum, verðmiðum, merkingum og útstillingareiningum. Hún leitar að fegurðinni sem býr í þessum hlutum, sem hafa mótast af ótal fagurfræðilegum ákvörðunum, efnislegum takmörkunum, framleiðsluskilyrðum, siðvenjum, samningum, löngunum og mistökum. Hildigunnur notar þessi mannlegu kerfi og samskipti til þess að skapa listaverk sín. Í vinnuferlinu beislar hún menningu og færni framleiðenda og fyrirtækja. Hún kollvarpar á glettinn máta væntingum okkar um fegurð, verðmæti og notagildi; hún sviptir hulunni af viðskiptakerfum sem fela sig beint fyrir framan augun á okkur. Verk listakonunnar endurspegla togstreituna á milli þeirrar persónulegu ánægju sem við getum upplifað í efnisheiminum og afleiðinga þess þegar heimurinn fyllist af slíkum hlutum.
Frá listakonunni: „Ég held að listsköpun mín mótist af því að hafa alist upp á lítilli eyju í Atlantshafinu, þar sem orðið hafa gríðarlegar breytingar með örfáum kynslóðum. Kapítalisminn birtist þar í raun á einni nóttu, andstætt við hægfara þróun hans í öðrum heimshlutum. Þar sem við erum svo agnarsmátt samfélag og kapítalisminn kom hingað svo skyndilega er þjóðin hin fullkomna ræktunarskál til að skoða þetta kerfi í smáatriðum, neysluhyggjuna, kapítalið og verðmætin. Sumir þættir þessara kerfa virka í raun ekki í svo litlu samfélagi og ákveðnar hliðar kapítalismans eru einfaldlega svo nýjar að þessi „nýja“ alþjóðlega neyslumenning er í hróplegu ósamræmi við fyrri lifnaðarhætti okkar.”
Sýningarstjórinn
Dan Byers er sýningarstjóri nútíma- og samtímalistar hjá Williams College Museum of Art í Massachusetts. Hann var áður John R. and Barbara Robinson Family Director hjá Carpenter Center for the Visual Arts við Harvard-háskóla. Meðal nýlegra verkefna hans má nefna sýningar með Jacqueline Kiyomi Gork, Pope.L, B. Ingrid Olson, Candice Lin, Deidrick Brackens og Katherine Bradford, Tony Cokes, Jonathan Berger, Liz Magor, og Renée Gree. Hann var áður Mannion Family Senior Curator við ICA/Boston, Richard Armstrong Curator of Modern and Contemporary Art við Carnegie Museum of Art, og starfaði ásamt þeim Daniel Baumann og Tinu Kukielski sem sýningarstjóri við Carnegie International 2013.
Íslenski skálinn
Yfirumsjón með íslenska skálanum í Feneyjum hafði Auður Jörundsdóttir, forstöðumaður Myndlistarmiðstöðvar. Hlutverk Myndlistarmiðstöðvar er að styðja við og kynna íslenska samtímalist á alþjóðavettvangi. Miðstöðin starfar með menningarmálaráðuneytinu og styrkir tengsl íslenska myndlistarheimsins við hina alþjóðlegu listasenu. Með því að veita styrki og hagnýta aðstoð gerir miðstöðin íslensku listafólki kleift að vinna að verkefnum utan landsteinanna. Myndlistarmiðstöð stuðlar að samstarfi við stofnanir og fyrirtæki á heimsvísu, hvort sem er í opinbera geiranum eða meðal einkaaðila. Síðan árið 2007 hefur Myndlistarmiðstöð haldið utan um þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum fyrir hönd menningarmálaráðuneytisins. Frekari upplýsingar má nálgast á síðu miðstöðvarinnar.
Salur
3
22.2.2025 — 7.9.2025
Listamaður
Hildigunnur Birgisdóttir
Sýningarstjóri
Dan Byers
Kynningarmynd
Hildigunnur Birgisdóttir
6:1 (Green), 2024
Ljósmynd: Vigfús Birgisson, birt með leyfi listamannsins og i8 gallerí
Í samvinnu með

