Saga - Þegar myndir tala

22.5.2015 — 6.9.2015

Listasafnið
Málverk eftir Helga Þorgils Friðjónsson, Blue Music, ártal 2005

Á sýningunni má sjá valin verk fjölda íslenskra samtímamyndlistarmanna auk nokkurra erlendra er endurspegla frásagnarþáttinn í íslenskri sjónmenningu. Sýningin var sýnd í Kunsthalle Recklinghausen 2014 og verður sýnd í KUMU; Samtímalistasafninu í Tallinn, Eistlandi nú í haust. Verkin á sýningunni eru valin af safnstjóra Listasafns Íslands, Halldóri Birni Runólfssyni og þýskum sýningarstjóra, Norbert Weber, og endurspeglar valið þá sýn á íslenska menningu sem hið glögga gestsauga getur veitt. Sýningin varpar ljósi á menningu þjóðar, frá innstu hugarfylgsnum til pólitískra átaka.

Hluti sýningarinnar felur meðal annars í sér nýleg viðtöl við listamenn hennar. Sýningunni fylgir öflug fræðsludagskrá ætluð íslenskum og erlendum safngestum.

Verk á sýningunni eiga:  Björk, Dieter Roth, Erró, Gabríela Friðriksdóttir, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hrafnkell Sigurðsson, Hulda Hákon, Jóhannes S. Kjarval, Kristleifur Björnsson, Ólafur Elíasson,Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir & Anna Hallin, Ragnar Kjartansson, Sigurður Guðmundsson, Steingrímur Eyfjörð og Þórður Ben Sveinsson.
Sýningarstjórar, Norbert Weber og Halldór Björn Runólfsson.

Sýningin er framlag Listasafns Íslands til Listahátíðar í Reykjavík

Veggtexti sýningarinnar

Sagnalistin er í hávegum höfð á Íslandi og sennilega eru bókmenntir, allt frá fornsögunum til skáldsagna Halldórs Laxness, mikilvægasta framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar. Hinir óútreiknanlegu náttúrulegu eiginleikar eyjunnar og lífsskilyrðin sem þeir skapa íbúunum hafa orðið ófáum íslenskum listamönnum innblástur til að takast á við áhrifamikil þemu. Í ljósi þessara staðreynda er eðlilegt að sjónum sé beint að frásagnarlist þegar kemur að því að skipuleggja sýningu á íslenskri list.

Sýningin er þannig byggð upp að grunnur hennar er fléttan og hugmyndin um leikræna framvindu. Sjá má verk sem gefa til kynna leiksvið, vísa til þekktra minna og sagna, sem leiða gestina á þekktar lendur frásagnarinnar eða skapa nýtt ómótað sögusvið, leiksvið þar sem ný frásögn verður til. Lagt er út af verki Johanns Heinrich Hasselhorst, Tal von Thingvalla, frá árinu 1862, sem er elsta þekkta málverkið af Þingvöllum og tilheyrir safneign Historisches Museum í Frankfurt. Verkið er kynnt hér á sýningunni í formi eftirgerðar ásamt bókarprenti. Í sama rými er að finna önnur sjónarhorn af sömu slóðum, í verkum Jóhannesar Sveinssonar Kjarval, sem flæða frá þekktu leiksviði Þingvalla inn í kynningar á persónum og fjörlegum ljóðabálkum sem mynda vissa gerð frásagnar í formi formála. Samtímalist er meginuppistaða sýningarinnar, allt frá verkum listamanna í SÚM-hreyfingunni og félaga þeirra til verka frá okkar dögum, svo sem ljósmynda í fullri líkamsstærð eftir Ólöfu Nordal og gagnvirkra tónlistarforrita eftir söngkonuna og lagahöfundinn Björk. Eftirmálinn er í formi myndasyrpu eftir Ólaf Elíasson, verks sem á sjónrænan hátt beinist að þeirri fjármálakreppu sem Íslendingar urðu nýverið að takast á við. Í þessu yfirliti blasa við okkur gagnrýnar og ævintýralegar frásagnir af samtímalegum og sögulega mikilvægum viðburðum og goðsagnir sem renna saman við raunveruleg eða ímynduð sögusvið, verk sem setja okkur út af laginu með beinskeyttri hreinskilni og torræðum lýsingum. Leyndardómurinn að baki furðulegum samsetningum Errós: absúrd ljósmyndauppstillingum Sigurðar Guðmundssonar: drungalegum innsetningum Gabríelu Friðriksdóttur: fiskvinnslustríðsmönnum Hrafnkels Sigurðssonar: æskuglöðu rokkstagli Ragnars Kjartanssonar: fjármáladjöflum Huldu Hákon: hinum stórkostlegu hólastaðgenglum Steingríms Eyfjörð: yfirnáttúrulegum fígúrum Helga Þorgils Friðjónssonar: vísindaskáldskaparlegum umbreytingum Þórðar Ben Sveinssonar á hengigörðum fornrar siðmenningar: og áleitnum portrettmyndum Kristleifs Björnssonar, er grundvallaður á torræðum sögum sem fróðleiksfúsir áhorfendur verða að kryfja til mergjar. Það sama gildir um ráðgátu í anda Lewis Carroll í gjörhugulli vídeóinnsetningu Önnu Hallin og Óskar Vilhjálmsdóttur. Enda þótt þær virðist heiðríkar, eru sögurnar að baki íslenskri frásagnarlist hvorki auðskildar né einfaldar.

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17